Elín Rán hjá UÍA sæmd starfsmerki UMFÍ
Elín Rán Björnsdóttir, fyrrverandi formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) var sæmd starfsmerki UMFÍ á þingi UÍA sem fram fór á Borgarfirði eystra á dögunum.
Fram kemur á vef UÍA að Elín Rán hefur komið víða við í starfi UÍA, sem keppandi, starfsmaður og stjórnarmaður. Eftir árangursríkan keppnisferil sneri hún sér að þjálfun hjá Hetti og Þristi og fór sem sumarstarfsmaður UÍA á Unglingalandsmót 2002.
Elín Rán var formaður UÍA árin 2008-2012 og leiddi hún félagið í gegnum mikla umbreytingu.
Hún hefur jafnframt starfað í nefndum á vegum bæði UMFÍ og ÍSÍ, var keppnisstjóri á Unglingalandsmótinu 2011 og í stjórn frjálsíþróttadeildar Hattar um tíma.
Sigurður Óskar Jónsson, úr varastjórn UMFÍ, sæmdi Elínu Rán merkinu.
Fjórir einstaklingar fengu starfsmerki UÍA fyrir vel unnin störf. Það eru þau Ásgrímur Ingi Arngrímsson, UMFB, Arngrímur Viðar Ásgeirsson frá UMFB, Bryndís Snjólfsdóttir UMFB og Davíð Þór Sigurðarson, Hetti.
Á þingi UÍA var Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, glímumaður úr Val Reyðarfirði, krýndur sem íþróttamaður UÍA annað árið í röð. Sama dag var svo aðild Lyftingafélag Austurlands að UÍA formlega samþykkt.