Fara á efnissvæði
08. september 2020

Elísa Viðarsdóttir: Hvetur annað íþróttafólk til að gefa ónotaða íþróttaskó

„Við áttum fullt af ónotuðum skóm og vildum halda boltanum á lofti sem Snorri Steinn kastaði í síðustu viku,“ segir knattspyrnukonan Elísa Viðarsdóttir, varnarmaður í meistaraflokki kvennaliðs Vals.

Félagar hennar í liðinu ákváðu í síðustu síðustu viku að gefa skó sem þær nota ekki. Hugmyndina átti Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals í handbolta og fyrrverandi landsliðsmaður, sem gaf ellefu pör af handboltaskóm í síðustu viku.

„Þetta var ótrúlega flott hjá honum og varð til þess að ég hugsaði: Af hverju gera þetta ekki fleiri?“

 

 

Elísa fékk félaga sína í meistaraflokknum með sér í lið, þær leituðu hátt og lágt að skóm og telst til að þegar upp var staðið hafi þær gefið á bilinu 20-30 skópör.

„Ég sá varla alla skóna, þeir runnu út eins og heitar lummur. Það eru svo miklar fyrirmyndir í liðinu og ungir iðkendur kepptust um hnossið,“ segir Elísa en bendir á að góður Valsari hafi þó rifjað upp að gömul hefð sé fyrir því að gefa íþróttaskó, það sé í anda séra Friðriks Friðrikssonar, stofnanda Vals.

„Við viljum endilega halda í þá hefð,“ segir Elísa og bendir á að íþróttafólk eigi alla jafnan mikið af íþróttaskóm sem það noti ekki, ýmist lítið notaða eða skó sem það hafi fengið gefins.

„Ég hvet annað íþróttafólk til að gefa ónotaða íþróttaskó sem það á og kasta boltanum yfir til meistaraflokks karla í knattspyrnu.“

 

Sjá: Snorri Steinn gefur íþróttaskó úr safni sínu