Fara á efnissvæði
13. október 2019

Elísabet, Gissur og Hallbera ný í stjórn UMFÍ

Haukur Valtýsson var sjálfkjörinn formaður UMFÍ til næstu tveggja ára á sambandsþingi UMFÍ í dag. Í aðalstjórn voru endurkjörin Guðmundur Sigurbergsson frá UMSK, Gunnar Gunnarsson frá UÍA, Gunnar Þór Gestsson frá UMSS, Jóhann Steinar Ingimundarson frá UMSK, Ragnheiður Högnadóttir frá USVS og Sigurður Óskar Jónsson frá USÚ.

Í varastjórn voru kjörin Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir frá UDN, Gissur Jónsson frá HSK, Hallbera Eiríksdóttir frá UMSB og Lárus B. Lárusson frá UMSK. Þau Elísabet, Gissur og Hallbera eru ný í varastjórn UMFÍ.

 

Hlúa vel að grasrótinni

Eftir að úrslit lágu fyrir sagði Haukur að mikið verði að gera á næstunni og lagði áherslu á að rækta sambandið við grasrótina. „Það er mikilvægt að eiga gott samstarf við sambandsaðila og hlusta eftir þörfum þeirra og óskum,‟ sagði hann og vísaði til þess að daginn áður var samþykkt að veita íþróttabandalögum aðild að UMFÍ. Þau íþróttabandalög sem hafa staðfest umsókn sína eru Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Akraness (ÍA). 

Haukur fagnaði inngöngu íþróttabandalaganna. „Við vitum að verkefnin verða stærri og því er gott að vera í góðum tengslum. Þá verður auðveldara að vinna saman. En við þurfum líka að sameina það starf sem við þurfum að fást við og hvet til sambandsaðila til að ræða saman," sagði hann.