Fara á efnissvæði
10. apríl 2021

Embla Líf: Ég gat ekki hætt að brosa

„Þetta var svo magnað, að ég gat ekki hætt að brosa. Það var svo magnað að heyra fulltrúa ungmennaráða opna sig um stöðuna. Staða þeirra um allt land er mjög misjöfn. Við áttum í afar góðu og gagnlegu samtali og lærðum svo mikið hvert af öðru. Við ætlum að endurtaka leikinn og hittast aftur. Það er svo mikill ávinningur af því að ræða saman og vinna saman,“ segir Embla Líf Hallsdóttir, sem sæti á í Ungmennaráði UMFÍ. Ungmennaráð UMFÍ stóð fyrir rafræna viðburðinum Samtal ungmennaráða á fimmtudagskvöld.

Embla Líf átti hugmyndina að samtalinu, var drifkraftur þess og stýrði viðburðinum fyrir hönd Ungmennaráðs UMFÍ, sem hittist að stærstum hluta í þjónustumiðstöð UMFÍ og fundaði með fjarfundarbúnaði við fulltrúa ungmennaráða um allt land.

Ungmennaráð UMFÍ hefur verið starfrækt innan UMFÍ um árabil. Það er afar virkt og hefur stærsti viðburður þess síðastliðin 10 ár verið ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði. Sú síðasta fór fram í Hörpu í fyrrahaust.

 

Ungmennaráð UMFÍ sameinar önnur ráð

Markmið samtalsins nú var að fá fulltrúa ungmennaráða um allt land að borðinu, deila reynslu sinni, hugmyndum og ræða saman með óformlegum hætti um það hvernig er að vera í ungmennaráði, hver hlutverkin eru, hvernig aldursskipting þeirra er, hverjir þröskuldarnir eru og hvernig komist er yfir þá, hver verkefnin eru framundan og fleira í þeim dúr.

Á viðburðinn komu um 30 þátttakendur frá 19 ungmennaráðum um allt land. Þar á meðal voru ungmennaráð annarra frjálsra félagasamtaka og ungmennaráð sveitarfélaga. Á meðal þátttakenda voru tveir fulltrúar frá nýskipuðu ungmennaráði Norðurþings og var fundur þeirra með ungmennaráðunum þeirra fyrsta verk.

Embla segir þátttakendur hafa verið svo ánægða að ræða málin og finna að þau standa ekki ein í sínu sveitarfélagi.

„Þarna sáu þau að við erum öll að glíma við það sama. En það þurfa ekki allir að standa í því að finna upp hjólið. Við vorum svo ánægð með viðburðinn að við ætlum að hittast aftur og deila hugmyndum okkar, reynslu og þekkingu,“ segir Embla Líf hjá ungmennaráði UMFÍ.