Fara á efnissvæði
01. mars 2022

Embla Líf er nýr formaður Ungmennaráðs UMFÍ

Ungmennaráð UMFÍ kom saman í fyrsta sinn á föstudag og skipti ráðið þar á milli sín verkum. Ráðið var skipað í kjölfar sambandsþings UMFÍ sem fram fór á Húsavík í október í fyrra. Eftir þingið var kallað eftir tilnefningum í ráðið og fundaði það nú í fyrsta sinn eins og áður sagði.

Í Ungmennaráði UMFÍ sitja ungmenni á aldrinum 16-25 ára af öllu landinu. Það stendur m.a. fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði sem haldin er á hverju ári. Markmiðið með ráðstefnunum er að vera vettvangur fyrir raddir ungs fólks, að fá fólk almennt til að átta sig á að um ungt fólk gildir hugmyndin; ekkert um okkur án okkar.

 

Á fundinum á föstudag var Embla Líf Hallsdóttir kosin formaður Ungmennaráðs UMFÍ og tekur hún við af Ástþóri Jóni Ragnheiðarsyni. Nýr varaformaður er Mikael Jens Halldórsson. Embla Líf er úr Mosfellsbæ en Mikael úr Fljótunum.  

Kosning í embætti var að öðru leyti eftirfarandi: Eiður Andri Guðlaugsson, Sara J. Geirsdóttir  og Hrefna Dís Pálsdóttir voru kosin skemmtanastjórar, Kolbeinn Þorsteinsson, Halla Margrét Jónsdóttir og Daði Þór Jóhannsson eru samfélagsmiðlastjórar og þær Betsý Ásta Stefánsdóttir og Karítas Sól Þórisdóttir eru meðstjórnendur.

Rætt var við Emblu í Bændablaðinu í janúar um starfið í Ungmennaráði UMFÍ.

Lesa meira um Ungmennaráð UMFÍ