Fara á efnissvæði
24. janúar 2018

Engar breytingar á Ungmennabúðum UMFÍ þrátt fyrir sölu á Laugum

Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur samþykkt 460 milljóna króna kauptilboð einkahlutafélagsins Arnarlóns í ferðaþjónustuþorpið Laugar í Sælingsdal. UMFÍ hefur starfrækt Ungmenna- og tómustundabúðir að Laugum síðan árið 2005. Þangað koma nemendur í 9. bekk grunnskóla og dvelja í eina viku í senn. Í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ er lögð áhersla á útiveru og félagsfærni.

UMFÍ er með leigusamning við Dalabyggð um rekstur Ungmenna- og tómstundabúðanna að Laugum til ársins 2019. Ekki til að gera breytingu á því.  

 

Fleiri skólar senda nemendur í Ungmennabúðir

Framundan er ansi annasöm vorönn í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ. Aldrei hafa jafn margir nemendur verið bókaðir í búðirnar og nú í ár. Nú eru væntanlegir um 2.000 nemendur frá 53 skólum víðsvegar að frá landinu.

Nemendur frá sex nýjum skólum bættust við á þessari önn.

 

Nýr eigandi eflir hótelreksturinn

Fram kemur í Fréttablaðinu að kaupandinn að Laugum er félagið Arnarlón. Félagið er í eigu Þórhalls Arnar Hinrikssonar, stjórnarformanns ALM verðbréfa og fyrrverandi knattspyrnumanns. Félagið gerði þrjú tilboð í Laugar. Það fyrsta barst sveitarstjórn Dalabyggðar í lok október í fyrra. Það þriðja var svo samþykkt 18. desember. Eigandi Arnarlóns ætlar að efla hótelreksturinn sem er nú einungis opinn tvo og hálfan mánuð á ári.

Tilboðið felur í sér kaup á jörðinni Laugum í Sælingsdal, jarðhitaréttindum, tjaldsvæði, 20 herbergja hóteli og öðrum fasteignum, þar á meðal heimavist með 26 herbergjum, íþróttamiðstöð og 25 metra langri sundlaug eða alls um fimm þúsund fermetra húsnæði.

Laugar eru í grunninn gamall grunnskóli með heimavist og fyrir 17 árum var elsta hluta hans breytt í hótel. Sveitarfélagið auglýsti það til sölu í september 2016 en það keypti fasteignirnar af ríkinu árið 2013.

 

Vilji til að halda rekstri Ungmennabúða áfram

Í blaðinu er rætt við Svein Pálsson, sveitarstjóra Dalabyggðar. Hann segir að áform séu um að byggja upp ferðamannastað að Laugum í Sælingsdal og áform um heilsársrekstur hótelsins. Icelandair-hótelin eru með samning um rekstur á Laugum og eiga tvö ár eftir af samningnum.

Sveinn Pálsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, sagði í viðtali í Skinfaxa um mitt ár 2016 í aðdraganda þess að Laugar voru settar í söluferli, að stefnt hafi verið að sölunni um árabil eða frá því Dalabyggð keypti Laugar. Ástæðan fyrir sölunni er sú að íþróttaaðstaða grunnskólabarna í Búðardal er á Laugum og þykir það of langt í burtu frá grunnskólanum. Til viðbótar sagði hann tekjur sveitarfélagsins af rekstri Lauga ekki duga fyrir viðhaldskostnaði fasteigna.

Hann benti á að ekki standi til að gera breytingar á rekstri Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍ.

„Það er mikill vilji til að halda starfsemi Ungmennabúðanna áfram enda er starfsemin mikiilvæg,“ sagði hann.

 

Meira um Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ