Enn slakað á sóttvarnarreglum
Fjöldatakmarkanir fara úr 10 manns í 50, nándarregla verður 1 metri og íþróttakeppnir verða leyfðar með áhorfendum, 500 í hverju hólfi. Grímuskylda er samt áfram í gildi, þótt hún taki almennt mið af nándarreglunni.
Þetta er megininntak nýrra og slakari reglna á samkomutakmörkunum en verið hafa í gildi í langan tíma. Ný reglugerð tekur gildi á miðnætti í kvöld.
Reglugerð um skólastarf helst eftir sem áður óbreytt.
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar kynntu nýja reglugerð, drög að afléttingaráætlun og forsendur hennar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti áformaðar breytingar. Hann sagði þetta verða áskorun. „En við munum vinna þetta áfram og meta aðstæður,“ sagði hann og áréttaði að gangi áætlunin eftir sé hægt að horfa til afléttingar allra aðgerða um miðjan mars.
Breytingar frá og með 29. janúar
- Almennar fjöldatakmarkanir fari úr 10 í 50 manns.
- Nándarregla fari úr 2 metrum í 1 metra.
- Óbreytt grímuskylda, sem tekur þó almennt mið af nándarreglu.
- Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði verði heimilt að hafa opið með 75% afköstum.
- Íþróttakeppnir verði áfram heimilar með 50 þátttakendum og áhorfendur séu leyfðir á ný.
- Hámarksfjöldi í verslunum geti mest orðið 500 manns.
- Skemmtistöðum, krám, spilastöðum og spilakössum verði heimilað að opna á ný.
- Veitingastöðum, þ.m.t. krám og skemmtistöðum, verði heimilt að hleypa nýjum viðskiptavinum til kl. 23.00 en gestum verði gert að yfirgefa staðina kl. 00.00.
- Á sitjandi viðburðum verði heimilt að taka á móti allt að 500 gestum í hverju hólfi, viðhalda skuli 1 metra nándarreglu milli óskyldra aðila auk grímuskyldu. Ekki verði þörf á hraðprófum.
- Í skólum verði óbreyttar takmarkanir, þó þannig að þær verði aðlagaðar framangreindum tilslökunum eftir því sem við á.
- Reglugerðin gildi í tæpar fjórar vikur til og með 24. febrúar.
Samkomureglugerð frá 29. janúar 2022 undirrituð