Erla bætist í hópinn
„Ég er mjög spennt og stolta af því að vera hluti af flottu teymi. Það hljómar svo vel,“ segir Erla Gunnlaugsdóttir. Hún var á dögunum ráðin í starf svæðisfulltrúa á svæðisstöðstöð íþróttahreyfingarinnar á Austurlandi og er þar með búið að ráða báða starfsmenn svæðisins. Hinn er Jóhanna Íris Ingólfsdóttir, sem býr á Höfn í Hornafirði.
Erla býr á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni. Hún er fædd árið 1995, hefur síðastliðin þrjú ár verið kennari við grunnskólann á Egilsstöðum. Hún er með bakgunn í frjálsum íþróttum og starfi íþróttafélaga. Lokaverkefni Erlu til B.Ed. – gráðu í kennaranáminu fjallaði um forvarnarstarf UMFÍ. Í M.ed.- náminu skrifaði hún um stuðning grunnskóla á Austurlandi við nemendur sem stunda íþróttir.
Erla var jafnframt sumarstarfsmaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurland (UÍA) árið 2017 og var stór hluti af starfi hennar það sumarið að undirbúa Unglingalandsmót UMFÍ, sem fram fór á Egilsstöðum þá um sumarið.
Fimmtán starfsmenn
Svæðisfulltrúar svæðisstöðva íþróttahéraðanna eru nú orðnir fimmtán talsins á átta starfssvæðum um allt land. Aðeins á eftir að ráða annan af tveimur starfsmönnum á Norðurlandi vestra. Störfin sextán voru auglýst í sumar og bárust 200 umsóknir um þau.
Hlutverk svæðisstöðvanna er að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni, styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar.
Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023.
Hér að neðan má sjá mynd af svæðisfulltrúunum fjórtán þegar þau hittust á vinnufundi á dögunum.