Fara á efnissvæði
28. janúar 2025

Erla: Ferðakostnaður er áskorun fyrir íþróttafólk

„Ein af okkar helstu áskorunum er ferðakostnaðurinn sem fylgir íþróttaiðkun. Það er ósanngjarnt að lið sæki um styrki og þeir fari meira og minna allir í ferðakostnað, á meðan lið sem þurfa lítið að ferðast geta notað peninginn í að gera starfið betra og öflugra,“ segir Erla Gunnlaugsdóttir, annar tveggja svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á Austurlandi.

Rætt er við Erlu í tímaritinu Snæfelli, tímariti Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA).

 

Þetta er Erla

Erla Gunnlaugsdóttir er 29 ára og býr á Egilsstöðum með manni sínum og tveimur börnum. Hún hefur unnið í Egilsstaðaskóla í rúm fimm ár og þjálfar frjálsar íþróttir. Erla kláraði BEd-gráðu í kennslufræðum á íþróttakjörsviði og mastersgráðu í kennslufræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Erla hefur áður setið í alls konar ráðum og stjórnum og unnið sem sumarstarfsmaður hjá UÍA, sem er Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands. Einnig þekkir hún til alls konar íþróttagreina og hefur kynnst íþróttastarfi hér á Austurlandi, á Húsavík þar sem hún bjó í hálft ár og á Akureyri þar sem hún bjó í þrjú ár.

Hún hóf störf sem einn af sextán svæðisfulltrúum íþróttahéraðanna seint á síðasta ári og myndar teymi með

Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur, sem er búsett á Höfn í Hornafirði.

Greina þörfina á hverju svæði

Allt Austurland er undir hjá þeim Erlu og Jóhönnu Írisi. Innan starfssvæðis þeirra eru fimm sveitarfélög, tvö héraðssambönd og mörg íþróttafélög, bæði lítil og stór.

Í viðtalinu segir að Erla hafi sótt um starf svæðisfulltrúa því henni hafi fundið spennandi að prófa eitthvað nýtt og viljað nýta reynslu sína, þekkingu og menntun í að hjálpa börnum á fjölbreyttari hátt. Hún hafi líka mikinn áhuga á UMFÍ, starfi þess og starfsemi, auk þess sem hún þekkir til íþróttastarfsins og fannst hún geta nýtt það í starfinu. Í starfinu felst meðal annars að greina héraðssamböndin og íþróttafélögin og vera í góðum samskiptum við héraðssamböndin, íþróttafélögin og sveitarfélögin auk þess að vinna að því að fjölga börnum í skipulögðu íþróttastarfi, sérstaklega börnum af erlendum uppruna og börnum með fatlanir.

Eitt af fyrstu verkefnunum hefur falist í því að greina helstu þörfina á svæðinu, hvar megi gera betur og hvar hægt sé að samræma þjónustuna betur.

„Það áhugaverðasta verður að sjá hvað kemur út úr greiningunum og hvaða tækifæri við sjáum. Auðvitað er líka áskorun að finna fyrir því að maður lagar ekkert á kortéri og það er heilmikil vinna að greina og sjá hvað við þurfum að gera betur fyrir íþróttafélögin og héraðssamböndin,“ segir Erla.

 

Mismunandi áskoranir

Áskoranirnar eru mismunandi eftir landshlutum og segir Erla að því beri að fagna að verið sé að ráða fólkið sem hægt sé að leita til ef eitthvað kemur upp á eða ef stjórn félaga langar að yfirstíga ákveðna hindrun til að bæta íþróttastarfið í heimabyggð. Einnig sé starfið öflugt tól til þess að styrkja héraðssamböndin og gera íþróttastarfið jafnara, bæði fyrir þjálfara, iðkendur og aðra sem koma að því, og gera starfið sýnilegra fyrir sveitarfélögin.

„Það er bara ótrúlega mikilvægt að við séum loksins komin með aðila sem búa á svæðinu og eru tilbúnir að heyra sýn og upplifun fólksins á gólfinu. Það er öðruvísi þegar ráðnir eru einhverjir sem hafa varla farið út fyrir höfuðborgarsvæðið og skilja kannski ekki alveg okkar hagsmuni. Hér erum við í allt öðrum bardögum heldur en sem dæmi á Reykjanesinu eða Suðurlandi, þar er bara allt öðruvísi umhverfi. Vonandi hjálpar þetta starf íþróttunum að verða sýnilegri og fá um leið meira fjármagn þannig að íþróttaiðkun barna fari ekki svona mikið inn á heimilin og þetta verði ekki svona mikil kvöð fyrir heimilin eins og t.d. ferðakostnaður er í dag,“ segir hún.
Mikill tími fer í fjáraflanir

Erla telur að það verði mikilvægt í starfinu að fá samtölin við íþróttafélögin, enda séu allir að gera sitt besta til að troða marvaðanum. Það er oft krefjandi að halda úti starfi í fámennum sveitarfélögum og fámenn bæjarfélög eiga erfitt með að halda í þjálfara. Oft gangi starfið á fáum aðilum, eldhugum. Íþróttastarfið deyi oft um leið og einstaklingurinn sem byrjaði með tiltekna grein eða viðburð flytur í burtu. Engum sé samt um að kenna.

Erla segir mikinn tíma hjá sjálfboðaliðum fara í fjáraflanir og halda utan um keppnisferðir. Oft komi það fyrir að Austfirðingar missi afreksfólk sem velur að flytja burt af svæðinu til að komast í betri aðstöðu utan heimahaga. Það sé slæmt fyrir Austurland en skiljanlegt eins og staðan er núna, þar sem heilmikill peningur fer í ferðakostnað og uppihald íþróttafólks.

 

Ekki á að mismuna eftir lögheimili

Erlu langar að íþróttirnar séu jafnari, fái jafna athygli, fái jafnan styrk frá sveitarfélögum og að börnum á Austurlandi sé ekki mismunað varðandi þjónustu og iðkendagjöld eftir því hvar þeirra lögheimili sé, þótt þau séu í sama sveitarfélagi.

„Í draumaheimi er pláss fyrir öll börn í íþróttum og svigrúm til að bjóða upp á aðrar íþróttir en afreksíþróttir. Þar má nefna íþróttir fyrir 18 ára og eldri þar sem fólk hittist bara og leikur sér og eflir sína andlegu heilsu og lýðheilsu,“ segir hún en bætir við að það sem hún telji skemmtilegast við starfið sé að eiga samtöl um íþróttir og íþróttastarfið allan daginn. Einnig sé kostur að geta rætt málin og leitað leiða á jákvæðan hátt og átt öflugt samstarf við gott fólk. Núna séu farsældarlögin komin í gildi og heilmikil vinna sé í kringum þau.

Að lokum bendir Erla á að svæðisfulltrúarnir séu spenntir að ljúka greiningum á sínum svæðum og vinna í ýmsum málum fyrir íþróttahreyfinguna. 

 

Hér að neðan má sjá tvær myndir af Erlu. Önnur þeirra sýnir hana með Jóhönnu Írisi Ingólfsdóttur,  hinum svæðisfulltrúa íþróttahéraðanna á Austurland, þegar þær kynntu greiningarvinnu sína fyrir stjórnum UMFÍ og ÍSÍ á dögunum. Hin myndin er frá árinu 2017 þegar Unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Egilsstöðum. Erla var þá sumarstarfsmaður UÍA og verkefnastjóri á mótinu.