Fara á efnissvæði
24. mars 2025

Erla hlaut hvatningarverðlaun USAH

Stjórnarfólki var fækkað um tvö á ársþingi Ungmennasambands Austur-Húnvetninga (USAH) sem fram fór um miðjan mars. Horft er til þess að auðveldara verði að manna stjórn USAH í kjölfar breytingarinnar. 

Þingið gekk vel og mættu 33 fulltrúar af 36 eða frá öllum aðildarfélögum USAH fyrir utan eitt. 

Á meðal gesta þingsins voru svæðisfulltrúar svæðisstöðva íþróttahéraðanna á Norðurlandi vestra, þau Halldór Lárusson og Sigríður Inga Viggósdóttir. Þau kynntu starfið og hlutverk svæðisstöðvanna, sem nær yfir starfssvæði USAH, USVH og UMSS. Þau hafa fundað einu sinni með íþróttahéruðunum þremur og er stefnt á fleiri fundi og meira samstarf. 

Ekki var kosið um formann í þetta sinn enda Snjólaug M. Jónsdóttir kjörin til tveggja ára í senn. Hún ætlar að sitja eitt ár til viðbótar. Kosið var um meðstjórnendur og gerð sú breyting að gjaldkeri stjórnar verður sjálfkrafa varaformaður auk þess sem varamönnum var fækkað úr 5 í 3. Stjórnin samanstendur eftir það af formanni, gjaldkera, ritara og tveimur meðstjórnendum auk þriggja varamanna. 

Þingfulltrúar og fráfarandi stjórn höfðu áhyggjur af stöðu mála hvað stjórnina snerti en daginn fyrir þingið hafði aðeins eitt framboð borist um stjórnarsetu. Á þinginu sjálfu náðist hins vegar að fullmanna stjórnina.

Á þinginu fékk Jón Jóhannesson frá Golfklúbbnum Ós starfsmerki UMFÍ. Það afhenti Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMFÍ, sem var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ. Brynhildur Erla Jakobsdóttir, varaformaður USAH, var sæmd Silfurmerki ÍSÍ og hlaut hún Hvatningarverðlaun USAH fyrir störf sín.

Þrjú aðildarfélög USAH hlutu viðurkenningar í tilefni af stórafmælum. Það voru Umf. Bólstaðarhlíðarhrepps, sem fagnar 90 ára afmæli á árinu og Golfklúbbur Skagastrandar og Golfklúbburinn Ós, sem báðir fagna 40 árum.