Fara á efnissvæði
19. október 2020

Eysteinn hjá Breiðabliki: Mikilvægt að koma íþróttastarfi af stað aftur

Íþróttastarf hefur legið niðri á höfuðborgarsvæðinu frá 7. október síðastliðnum. Að óbreyttu hefst það að nýju á morgun, þriðjudaginn 20. október, en með ýmsum annmörkum og takmörkunum.

En hvað ætli stjórnendur íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu segi um málið?

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks í Kópavogi:

 

Hvernig lýst þér á aðgerðir sóttvarnalæknir og reglugerð heilbrigðisráðherra sem taka gildi á morgun?

„Ég ætla ekki að gerast svo djarfur að halda að ég sé sérfræðingur í sóttvarnarmálum og trúi því að verið sé að gera það sem til þarf til að útrýma veirunni úr okkar samfélagi. Hins vegar eru íþróttir og tómstundir barna í dag geðheilbrigðismál að mínu mati. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að reyna halda úti skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi eins og kostur er við þessar aðstæður þar sem farið er eftir öllum sóttvarnarreglum.“

 

 

Hvernig er faraldurinn og aðgerðirnar að fara með félagið – eða gera íþróttastarfi almennt?

„Það segir sig sjálft að þetta er farið að þyngjast hjá öllum en við erum ekkert á verri stað en aðrir. Allir eru að glíma við þennan sama vanda. Við erum þakklát fyrir það sem búið er að gera af hálfu stjórnvalda. En ég trúi því og vona að meira komi til, það er í raun alveg lífsnauðsynlegt. Ég held að fólk átti sig ekki alltaf á því hvað íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og það starf sem fer fram innan hreyfingarinnar.

Við erum með þúsundir sjálfboðaliða sem vaka og sofa yfir þessum málum um land allt. Þá eru líka fjölmargir innan félaganna sem hafa helgað sig íþróttastarfinu (starfsmenn/afreksfólk) og hafa þetta af atvinnu. Þá er forvarnargildi skipulagðs íþrótta- og tómstundastarfs óumdeilt og því þarf að leita allra leiða til að verja íþrótta- og tómstundastarfið sem fram fer um allt land.“

 

Hver er staða íþróttamála á Íslandi nú, að þínu mati?

„Staðan heilt yfir var góð áður en þessi ósköp komu yfir okkur. Það er samt alltaf hætta á miklu brottfalli við svona aðtæður og að við missum iðkendur úr okkar starfi, m.a. vegna fjárhagsþrenginga fjölskyldna í landinu. Við það verður ekki unað og þurfum við að bregðast við því með einhverjum hætti.“

 

Hvað væri hægt að gera?

„Eins og ég kom inná í upphafi að þá er þetta orðið að geðheilbrigðismáli að mínu mati og innan íþróttahreyfingarinnar vinnur mikið af fagfólki sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum til að halda úti starfinu við þessar aðstæður og tel ég mikilvægt að koma starfinu af stað aftur með einhverjum hætti. Eitt af því væri sem dæmi að fara inní hverfin og halda úti starfinu eins og kostur er þannig að blöndun á hópum verði sem minnst á milli hverfa.

Ég tel það betri lausn en hópamyndanirnar á öllum skólalóðum þar sem ekkert skipulag er viðhaft né sóttvarnarreglum fylgt. Ef hægt er að halda skólastarfinu gangandi tel ég að það ætti að vera hægt að halda íþrótta- og tómstundastarfinu líka gangandi undir eftirliti því það skiptir gríðarlega miklu máli á þessum fordæmalausu tímum og þá sér í lagi fyrir börnin og unglingana okkar.“