Eysteinn, Líney og Pálmar ræða íþróttastarfið
Samkomubanni verður aflétt að hluta á íþróttaiðkun barna og ungmenna á mánudag, 4. maí. Enn verða takmarkanir á íþróttaiðkun 17 ára og eldri og verða bæði sundlaugar og líkamsæktarstöðvar lokaðar áfram.
Rætt var um íþróttastarfið í beinni útsendingu frá fundi Almannavarna í dag og spáð fyrir um starfið næstu daga. Fundinum stýrði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn en gestir voru þau Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, og Pálmar Ragnarsson, fyrirlesari og þjálfari hjá Val.
Æfingar fullorðinna mögulega undir lok maí
Víðir ræddi m.a. um Íslandsmótin í fótbolta sem stefnt er á að geti hafist í júní. Hann sagði framhaldið byggja á því að allt gangi vel. Ljóst sé að undanþágu þurfi frá tveggja metra reglunni. Á hinn bóginn verði takmarkanir á áhorfendum. Sóttvarnalæknir segi fjöldann geta farið í næsta skrefi upp í 100 og síðan 2.000. Tímasetningar komi fljótlega í ljós.
Víðir sagði áhættu fylgja því að hefja keppni á ný. Komi upp smit hjá leikmanni eða öðrum innan liðs geti svo farið að 60-70 manns þurfi að setja í sóttkví. Þar á meðal eru allir leikmenn, varamenn, þjálfarar, dómarar og aðrir.
Víðir sagðist telja mögulegt að æfingar fullorðinna geti hafist aftur í seinni hluta maí eða lok mánaðar. Það skýrist allt af því hvernig gengur að létta af banni við íþróttastarfi barna og ungmenna á mánudag.
Yfirvöld funda með sérsamböndum um málið á mánudag, að sögn Víðis.
Eysteinn sagði áskorunina mikla og muni allir leggjast á eitt um að fara að tilmælum yfirvalda til að koma í veg fyrir að smit berist við æfingar. Gangi allt eftir geti Íslandsmót karla og kvenna í knattspyrnu hafist í júní. Hann sagði stjórnendur íþróttafélaga vinna saman og ræða málin svo hægt verði að halda mótin. „Við höldum ótrauð áfram að því gefnu að ekkert komi upp á,‟ sagði hann.
450 milljónir líklega ekki nóg
Á fundinum ræddi Líney m.a. aðgerðir stjórnvalda við íþróttastarfið. Í þeim felst úthlutun upp á 450 milljónir króna sem ÍSÍ er falið að úthluta til íþróttahreyfingarinnar til þess að mæta áhrifum COVID-19.
Úthlutunin snýr bæði að almennum og sértækum aðgerðum. Almennar aðgerðir munu taka mið af reiknireglu og koma til framkvæmda strax. Sértækar aðgerðir felast í að fjármagni verði úthlutað vegna sérstakra viðburða, móta og keppnishalds sem ekki getur orðið af vegna COVID-19. Auglýst verður á vef ÍSÍ eftir umsóknum vegna þessa. ÍSÍ mun síðan fylgjast náið með starfsemi íþróttafélaga og upplýsa ráðuneytið með reglubundnum hætti um áhrif þeirra aðgerða sem ráðist verður í.
Líney sagði stóran hluta fjárhæðarinnar fara strax út til íþróttafélaganna í formi almennra aðgerða. Sérsambönd, íþróttahéruð og íþróttafélög geti sótt um sértækar aðgerðir vegna beins fjárhagstaps af völdum COVID-19. Sem dæmi geti körfuknattleiksdeild KR sótt um styrk og Breiðablik, verði ekkert af Símamótinu, að mati hennar.
Líney sagði tapið í íþróttahreyfingunni af völdum COVID-19 nema í kringum tveimur milljörðum króna.
„Velta íþróttahreyfingarinnar 2018 var um 26 milljarðar, þar voru framlög og styrkir fyrirtækja um 12 milljarðar, auglýsingatekjur tæpur milljarður og æfingagjöld forráðamanna 3,2 milljarðar. Tekjur af mótum var tæpur tveir milljarðar. Meðallaun og verktakagreiðslur á mánuði í íþróttahreyfingunni voru 750 milljónir, sem gera 9 milljarða á ári. Það má ætla að áhrif veirunnar á tekjufallið séu tveir milljarðar,‟ sagði hún og tók fram að íþróttafélög hafi brugðist við aðstæðunum með nýjum samningum við leikmenn og þjálfara og hagrætt í rekstrinum.
Líney sagðist telja 450 milljónir ekki nægilega háa upphæð og bindur vonir við frekari stuðning stjórnvalda við íþróttastarfið.
Hún tók fram að í síðustu aðgerð ríkisstjórnarinnar er lögð til 600 milljóna króna aukafjárveiting til sveitarfélaga vegna tímabundins stuðnings við fjölskyldur í erfiðri stöðu, svo tryggja megi jöfn tækifæri barna og ungmenna til íþrótta- og tómstundastarfs í sumar.
Líney sagði það létta undir með mörgum heimilum og auðvelda börnum að stunda skipulagt íþróttastarf.
Eysteinn tók undir það, bætti við að sveitarfélög hafi komið til móts við íþróttahreyfinguna og aukið við frístundastyrkinn.
Breytingar á samkomubanni í hnotskurn
Frá 4. maí falla alveg niður takmarkanir á fjölda barna og ungmenna frá 0 - 16 ára sem og tveggja metra nálægðarmörk.
Fyrir eldri aldurshópa (17 ára og eldri) gildir 50 manna fjöldamörk sem og tveggja metra nálægðarmörk áfram.
Íþrótta- og æskulýðsstarf barna og ungmenna (0 - 16 ára)
- Engar fjöldatakmarkanir verða settar á iðkendur.
- Öll íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, inni og úti, verði leyfð.
- Skíðasvæði verði opin fyrir æfingar barna og unglinga.
- Sundlaugar, búnings- og sundaðstaða verði opin fyrir sundæfingar barna og unglinga.
- Keppni í íþróttum barna á leik- og grunnskólastigi verði heimil án áhorfenda.
- Hvatt verði til sérstaks hreinlætis og handþvottar.
-
Í viðmiðum fyrir leikskóla er gert ráð fyrir að foreldrar komi ekki inn í leik- og grunnskóla. Með sama hætti er ekki æskilegt að foreldrar komi með börnum sínum á æfingar eða fylgist með æfingum þeirra.
Íþróttastarf eldri hópa (17 ára og eldri)
- Mest verði sjö einstaklingar með þjálfara á útisvæði sem miðast við hálfan fótboltavöll (2.000 m²).
- Mest verði fjórir einstaklingar með þjálfara á innisvæði sem miðast við handboltavöll (800 m²).
- Notkun búningsaðstöðu innanhúss verði óheimil.
- Hvatt verði til að tveggjametra nándarreglan verði virt.
- Keppni í íþróttum fullorðinna verði óheimil nema ef hægt sé að uppfylla skilyrði um tveggja metra nándarreglu og að keppni sé án áhorfenda.
- Sundæfingar fyrir fullorðna verði að hámarki fyrir sjö einstaklinga. Notkun búnings- og sturtuaðstöðu verði leyfð.
- Áfram verði hvatt til sérstaks hreinlætis, handþvottar og notkunar handspritts.
- Sundlaugar verði lokaðar almenningi.
Fleiri fréttir af fundinum í dag
Líney Halldórsdóttir: Tekjutapið um tveir milljarðar
Víðir Reynisson: Allt skipulagt mótahald færi í uppnám
Styttist í að sundlaugarnar verði opnaðar á ný
Myndirnar sem fylgja með hér að ofan eru frá Lögreglunni.
Útsending frá fundi Almannavarna. Hægt er að smella á myndina og sjá upptöku frá fundinum.