Fatlaðir geta skráð sig í margar greinar á Unglingalandsmóti
Nú er heldur betur farið að styttast í Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. Opnað verður fyrir skráningu 1. júlí næstkomandi. Boðið er upp á keppni í 21 grein auk þess sem hægt verður að prófa helling af fleiri greinum. Á meðal keppnisgreina eru biathlon, bogfimi, strandhandbolti, pílukast og svo íþróttir fatlaðra en þar er sérflokkur í frjálsum íþróttum og sundi. Fatlaðir geta svo auðvitað keppt í öllum hinum greinunum eins og kökuskreytingum og mörgum fleiri.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Unglingalandsmót UMFÍ 2019 fer fram dagana 1. - 4. ágúst á Höfn í Hornafirði. Skráningargjald er 8.000 kr. Öll ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára geta skráð sig til leiks.
Ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag.
Dagskráin er eins og alltaf sneisafull af skemmtilegheitum, íþróttum á daginn, afþreyingu fyrir alla og tónleikum í risastóru samkomutjaldi á kvöldin.
Fylgist með öllu mótinu á www.ulm.is