Fara á efnissvæði
14. febrúar 2018

Félög UMSK ætla að standa saman gegn kynbundnu ofbeldi

„Fyrst og fremst lít ég á þetta sem tækifæri og er afar jákvæð fyrir komandi tímum. Ég er sannfærð um að við í stjórninni munum vinna góða hluti saman,“ segir Hanna Carla Jóhannsdóttir. Hún var kosin í stjórn Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) á 94. ársþingi sambandsins í gærkvöldi.

Hanna Carla er eina konan í aðalstjórn UMSK og yngsti stjórnarmaðurinn. Hún er 31 árs.

Á þinginu samþykktu stjórnendur aðildarfélaga UMSK jafnframt stuðning við METOO-byltinguna og ætla þeir að vinna að því að fyrirbyggja ofbeldi innan íþrótta- og ungmennafélaga. 

UMSK er langstærsti sambandsaðili Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) með meira en 75.000 iðkendur. Innan sambandsins eru ungmenna- og íþróttafélög í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og í Kjós. Þar á meðal Afturelding, Stjarnan, HK, Grótta og fleiri félög.

„Ég fagna þeirri ályktun er lögð var fram á þinginu í gær þar sem UMFÍ og ÍSÍ eru hvött til að vinna saman að samþættingu aðgerðaráætlana gegn kynferðislegu ofbeldi innan íþrótta- og ungmennafélaga,“ segir Hanna Carla.

„Saman myndum við sterkari heild, horfumst í augu við raunveruleikann og tryggjum að allir njóti mannlegrar virðingar.”

Rúmlega 70 þingfulltrúar aðildarfélaga UMSK skrifuðu nafn sitt undir ályktunina.  

 

Ályktun frá ársþingi UMSK

Stór hópur íþróttakvenna hefur fellt tjaldið undir formerkjum #METOO og greint frá kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn sér í heimi íþróttanna. Í yfirlýsingu sem með fylgdi kröfðust konurnar þess að stúlkur og konur fái að iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af ö̈llum toga.

Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 konur nafn sitt ásamt því að þeim fylgdu 62 frásagnir.

Nú er komið að okkur í aðildarfélögum UMSK að sýna stuðning okkar í verki. Við ritum nafn okkar hér að neðan til að sýna að ofbeldi, áreitni og önnur ósæmileg hegðun á ekki að lýðast innan ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar. Við munum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að svo verði.

 

Ályktun aðildarfélaga

Við ætlum að bregðast við og leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar. Við viljum fyrirbyggja ofbeldi og áreitni innan félaga okkar og munum bregðast við komi slík mál upp innan félagsins. 

Hér að neðan má sjá hluta af undirskriftum forystufólks innan UMSK.