Fara á efnissvæði
28. janúar 2019

Félögin vilja koma til móts við öll börn

Ungmennafélagshreyfingin vinnur að því að allir geti verið með í íþróttum, óháð hvers konar hugsanlegum takmörkunum og þröskuldum. „Fyrsta skrefið er opin umræða. Alls staðar þar sem við ræðum þessi mál er fólk mjög jákvætt. Og það er mín tilfinning að þegar umræðan snýr að börnum þá er fólk sérstaklega jákvætt og tilbúið til að finna lausnir svo að sem flestir geti notið sín í íþróttum,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

 

Rætt er við Auði í vikublaðinu Mannlífi. Þar segir hún að í breyttu landslagi séu ungmenna- og íþróttafélög nú að skoða hvernig hægt sé að koma til móts við trans börn og önnur börn í íþróttum með mismunandi þarfir.

 

Urðu að gefa Ronju frelsi

Innslag Auðar er hluti af viðtali Mannlífs við móður trans stelpunnar Ronju Sifjar Magnúsdóttur. Hún er átta ára lífsglöð trans stelpa sem var fullviss um sitt rétta kyn um svipað leyti og hún fór að tala. Hún fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan sem er ekki síst að þakka víðsýni foreldranna og frábærum viðtökum samfélagsins í kringum þau. Hindranirnar eru samt æði margar fyrir trans fólk og ein þeirra er þátttaka þeirra í íþróttum og sundi.

Fjölskyldan býr á sveitabæ í Flóahreppi. Faðir Ronju, Magnús Baldursson, er vélvirki hjá kælismiðjunni Frost og móðir hennar, Stefanía Ósk Benediktsdóttir, er leiðbeinandi í leikskólanum Krakkaborg. Ronja á tvö systkini, Ásdísi Evu, tólf ára, og Sölva Þór, fjögurra ára, sem er á leikskólanum Krakkaborg.

 

Ronja æfir frjálsar íþróttir og glímu með ungmennafélaginu Þjótanda.

Móðir hennar segir:

„Hún æfði fimleika í fyrra með ungmennafélagi Stokkseyrar og henni hefur verið tekið vel hjá báðum félögum. Hún hefur keppt á einu litlu fimleikamóti og keppti þá með stelpunum. Hún fer í klefa með stelpunum og það gerir hún einnig í leikfimi og sundi í skólanum. Hún fer inn á salernið í klefanum til að fara í sundfötin. Henni finnst það sjálfri best. Eins og er hafa ekki komið upp nein vandamál,“ segir Stefanía og er hæstánægð með móttökurnar sem Ronja hefur fengið í samfélaginu í kringum þau.

En hvernig er hægt að koma til móts við trans börn innan íþróttaheimsins?

„Þessa stundina erum við að reyna að átta okkur á hvernig framtíðin lítur út og taka ákvarðanir í takt við það. Þetta er einn af þessum flokkum sem er að breytast í samfélaginu, ekki bara innan íþróttaheimsins,“ segir Auður Inga.

Helsta hindrunin þessa stundina er að hennar sögn sú að fólk veit ekki almennilega hvernig á að bregðast við og koma til móts við fjölbreytileikann í samfélaginu. Þar á meðal eru trans börn.

„Okkar upplifun er sú að fólk er ekki endilega búið að mynda sér skoðun, fólk veit ekki hvernig er best að taka á þessum málum. Fáir verkferlar virðast vera til. Fólk getur verið óöruggt en allir eru samt af vilja gerðir og vinna því með hvert mál fyrir sig.“

Viðtal við foreldra Ronju í Mannlífi

 

Stjórnendur og þjálfarar opnir fyrir lausnum

Spurð út í hvort hún viti til þess að trans börn hætti frekar að stunda íþróttir en önnur börn segir Auður: „Það eru ekki til neinar tölur um það hjá UMFÍ. Við höfum sem dæmi verið að skoða hvort börn af erlendum uppruna hætti frekar að stunda íþróttir en önnur börn og það virðast vera skýr tengsl þar á milli. En við höfum ekki skoðað íþróttaiðkun trans barna sérstaklega.“

Auður kveðst þá ekki vita til þess hvort það sé á dagskránni að mæla hvort trans börn haldist verr í íþróttum en önnur börn.
„En þessi málaflokkur hefur opnast að undanförnu og það er upplifun okkar að félögin vilja koma til móts við börn sem eru með ólíkar þarfir.“

Jákvæð viðbrögð við umræðunni um hvernig sé hægt að koma til móts við fjölbreytt samfélag kemur Auði ekki á óvart. „Svona er umræðan bara að þróast í öllu samfélaginu og ungmenna- og íþróttafélögin þurfa að bregðast við því. Stundum er fólk bara að bregðast við hlutum af því að það þarf að gera það en þegar kemur að þessum málaflokki þá vill fólk svo sannarlega bregðast við.“

Það er upplifun okkar að félögin vilja koma til móts við börn sem eru með ólíkar þarfir.

Auður er bjartsýn á framtíðina og þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. „Ég get alveg fullyrt að steríótýpur eru á undanhaldi og jafnrétti er í forgrunni í íþróttaheiminum, við sjáum alþjóðlegar áherslur í átt að ókynbundnum íþróttum og eins erum við að sjá fatlaða og ófatlaða keppa meira saman.“

 

Mikilvægt að hafa umgjörð

Að mati Auðar er mikilvægt að búa til skýra umgjörð um hvernig trans börn geta stundað íþróttir innan íþróttafélaganna.
„Það er mikilvægt vegna þess að þegar börn og unglingar fara að keppa í íþróttum þá hafa íþróttafélögin verið að fá alls konar kvartanir og kærumál varðandi mótahald. Ef við búum ekki til skýran ramma þá vandast málin,“ segir Auður.
„Það er nefnilega hræðilegt að hugsa til þess að ætla að leyfa trans börnum að æfa íþróttirnar eins og hentar þeim en ætla svo að snúa ákvörðuninni við þegar þau komast á unglingsaldur eða þegar þau eru farin að keppa á mótum. Það væri ekki góð niðurstaða. En vonandi er hægt að komast að farsælli lausn sem fyrst. Það er allavega mjög jákvætt að fólk er að skoða þennan málaflokk og koma umræðunni af stað.“

Viðtalið við Auði Ingu í Mannlífi

 

Fjallað er um framtíðina og mismunandi þarfir iðkenda í ítarlegri umfjöllun í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. 

Á meðal efnis í blaðinu: 

 

Lesa Skinfaxa á PDF