Fara á efnissvæði
02. ágúst 2019

Fimleikastelpur og körfuboltastelpur keppa í knattspyrnu

„Það er svo gaman að vera með á mótinu að við skráðum okkur í körfubolta og fótbolta,“ segir Krista Gló Magnúsdóttir í liðinu The Plastics þar sem hún sat á hliðarlínunni og beið með Karlottu Ísól Eysteinsdóttur eftir því að komast inn á í fótboltaleik á móti liðinu Umpalumpas á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina.

Áhorfendur tóku vel eftir því að liðsmenn beggja liða voru ekki á heimavelli. Lið The Plastics samanstendur af sjö stelpum á aldrinum 15-16 ára og eru þar af sex í U15-landsliðinu í körfubolta. Þær koma víða að, frá HSK, Ungmennafélagi Grindavíkur og Ungmennafélagi Njarðvíkur. 

Í The Umpalumpas eru fimleikastelpur úr Gerplu. Þær eru skráðar í fimm greinar: Strandblak, strandhandbolta, körfubolta, fótbolta og auðvitað fimleika.

Leikar enduðu með 4-2 sigri Umpalumpas.

Mjög algengt er að þátttakendur á Unglingalandsmóti UMFÍ skráir sig í margar greinar. Vinsælustu greinar mótsins eru knattspyrna og körfubolti auk strandblaks sem hefur slegið í gegn. 

Um 1.000 þátttakendur á aldrinum 11-18 ára eru á mótinu ásamt foreldrum og forráðamönnum og má ætla að mótsgestir séu um 5-6.000 talsins á Höfn um verslunarmannahelgina. 

Hér má sjá myndir úr leiknum