Fimmtíu Íslendingar frá UMFÍ kynna sér landsmót Dana
„Það er mjög áhugavert að sjá hversu vel borgaryfirvöld í Álaborg vinna með íþróttahreyfingunni að landsmótinu og hvað borgarbúar tóku mikinn þátt í mótinu. Þetta var allt saman mjög grand,“ segir Gunnar Gunnarsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) og stjórnarmaður í UMFÍ.
Hann hefur verið í tæpa viku ásamt um fimmtíu manna hópi frá Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) og sambandsaðilum í Danmörku til að fylgjast með landsmóti DGI í Álaborg. Í ferðinni eru stjórnendur og fulltrúar ungmennafélaga víða frá Íslandi. Mótið var sett á fimmtudag og lauk því í gær, sunnudaginn 2. júlí.
Undirbúa gott mót
Hópurinn frá Íslandi hefur fylgst með undirbúningi landsmóts DGI um nokkurt skeið. Tilgangur ferðinnar nú var að fræðast frekar um mótið, ræða við stjórnendur DGI um þætti á borð við aðkomu sveitarstjórna og sjálfboðaliða að mótinu, keppendur, tengsl DGI og skipuleggjenda mótsins við fjölmiðla, skipulag þess og fleira sem skiptir máli við skipulagningu stórmóta.
Gunnar segir áhugavert hafa verið að fylgjast með ytri samskiptum DGI, það er samskiptum við sveitarstjórnir og fjölmiðla, borgarbúa og ungmennafélög á landsvísu. Eftirtektarvert hafi verið í Álaborg hversu margir fjölmiðlar í Danmörku fylgdust með mótinu í borginni. Fjölmargir fréttamenn voru þar frá DR og TV2 auk fjölmiðla á Norður-Jótlandi. Fjölmiðlafólk sagði líka mikilvægt að fylgjast með mótinu enda sé það stórviðburður í þessum hluta landsins. Sýnt var beint frá setningu mótsins í danska ríkissjónvarpinu og TV2.
„Landsmót DGI er auðvitað miklu stærra í sniðum en Unglingalandsmót UMFÍ. Það er flott að sjá hvað mótið var sýnilegt í borginni og hvað fjölmiðlar sýndu því mikinn áhuga. Við sáum margt sem hægt er að útfæra á einfaldan hátt fyrir Unglingalandsmót og fyrir önnur mót á vegum UMFÍ,“ segir Gunnar.
DGI er stytting á Danmarks Gymnastik- og Idrætsforeninger (ísl. Fimleika- og íþróttafélag Danmerkur). Þetta eru systursamtök UMFÍ og hafa þau haldið landsmót frá árinu 1862. Góð samvinna og mikill vinskapur er á milli DGI og UMFÍ og er hluti af verkefnum UMFÍ byggt á fyrirmyndum sem mótaðar hafa verið hjá DGI. Stór hópur danskra ungmennafélaga kom til Íslands vorið 2015 til að kynna sér verkefni og störf íslenskra ungmennafélaga. Í ágúst 2015 kom síðan stjórn DGI í heimsókn til þess að kynna sér og upplifa unglingalandsmót UMFÍ.
Skráning að hefjast á Unglingalandsmót UMFÍ
Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um næstu verslunarmannahelgi, dagana 4.-6. ágúst. Mótið hefur verið haldið síðan árið 1992 og nýtur mikill vinsælda. Gert er ráð fyrir um 10.000 manns á Egilsstöðum yfir mótahelgina.
Unglingalandsmót UMFÍ er ætlað ungmennum á aldrinum 11-18 ára og geta þau skráð sig til þátttöku í fjölda greina þótt þau séu ekki skráð í íþrótta- eða ungmennafélag.
Opnað verður fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ á næstu dögum.