Fjárveitingar háðar því að félögin vinni eftir siðareglum og viðbragðsáætlunum
„Stóru félögin, á borð við Völsung, taka vel í að skilyrða sig til að fara eftir siðareglunum og kvitta upp á að óska eftir sakavottorðum fyrir þjálfara og annað starfsfólk. En þetta ferli getur verið erfiðara fyrir minni félög. Viðbragðsáætlun og siðareglur Æskulýðsvettvangsins duga þeim þess vegna mjög vel,“ segir Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Norðurþings á Húsavík.
Sveitarfélagið endurnýjaði nýverið samstarfssamning sinn við nokkur félög á svæðinu. Um nýbreytni er að ræða í Norðurþingi því að sveitarfélagið hóf nú í sumar að greiða frístundastyrki fyrir skipulagt íþrótta- og tómstundastarf barna og ungmenna. Til viðbótar tók sveitarstjórnin undir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og setur nú það skilyrði að íþróttafélög setji sér siðareglur til að fá fjárstuðning sveitarfélagsins.
Kjartan bendir á að mörg sveitarfélög hafi gripið til álíka aðgerða í kjölfar þess að fjöldi íþróttakvenna steig fram í janúar undir myllumerkinu #MeToo og greindi frá kynferðislegu ofbeldi og áreiti gagnvart sér.
Samband íslenskra sveitarfélaga mælti fyrir því að sveitarstjórnir myndu setja skilyrði fyrir fjárstuðningi við íþróttafélög til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni innan raða þeirra. Hafnfirðingar og Skagfirðingar og sveitarstjórnir í fleiri byggðarlögum svöruðu kallinu. Fjárveitingar til aðildarfélaga Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) eru til dæmis nú háðar því að félögin vinni eftir þeim siðareglum og viðbragðsáætlunum gegn ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi og áreitni sem sambandið setur sér. Auk þess á UMSS að standa reglulega fyrir fræðslu um þessi mál fyrir félagsmenn sína.
Kjartan segir Norðurþing hafa byrjað á því að setja þessa fyrirvara inn í samstarfssamninga sem var verið að endurnýja.
Eins og áður sagði hafi það gengið vel fyrir stóru félögin enda byggi þau á því að hafa sett sér siðareglur og búið til handbók um starfsemi sína og verkferla. Öðru máli gegni um minni félögin með fáa félagsmenn.
„Við erum mjög vakandi fyrir því að fólk má ekki hleypa hverjum sem er í að bjóða upp á starf fyrir börn og ungmenni og taka við frístundastyrkjum. Fólk þarf að halda úti viðurkenndu starfi. Þess vegna þurfa allir að skila inn sakavottorði fyrir þjálfara og starfsfólk sitt. Ef íþróttafélög hlýða ekki skilyrðum okkar getum við krafið þau um endurgreiðlu,“ segir Kjartan og ítrekar að Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins og siðareglur séu lykilplögg fyrir minni félög ásamt því að stjórnendur félaga verði að óska eftir sakavottorðum þjálfara sinna og starfsmanna sem vinna með börnum.
Óheimilt að ráða fólk með refsidóm
Greinin birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Um miðjan ágúst, eftir útkomu Skinfaxa, kynnti tillögur sínar starfshópur menntamálaráðherra um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Hópinn skipaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í kjölfar metoo-yfirlýsingar íþróttrakvenna.
Á meðal tillagnanna er að íþrótta- og æskulýðsfélögum verði óheimilt að ráða fólk sem hlotið hefur refsidóma fyrir brot sem falla undir kynferðisbrotakafla hegningarlaga auk þess sem hægt verði að greina frá ofbeldi og aðra óæskilega hegðun til óháðs aðila sem geti komið þeim í réttan farveg.
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, átti sæti í starfshópnum ásamt fulltrúum ÍSÍ og fleirum.
Menntamálaráðherra stefnir að því að kynna frumvarp um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í íþrótta- og æskulýðsstarfi í haust.