Fjöldi fólks fagnaði nýjum Ungmennabúðum á Laugarvatni
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, og Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, skrifuðu í gær undir samning um íþróttamiðstöðina á Laugarvatni. Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ sem í rúman áratug hafa verið á Laugum í Sælingsdal flytja á næsta skólaári til Laugarvatns. Samningurinn kveður á um að UMFÍ leigir íþróttamiðstöðina til tíu ára. Auk þess mun UMFÍ bjóða ungmenna- og íþróttafélögum afnot af nýrri aðstöðu á Laugarvatni, um helgar og á sumrin, þegar húsnæðið er ekki í notkun sem ungmenna- og tómstundabúðir.
Símalaus ungmenni á Laugarvatni
Íþróttamiðstöðin á sess í hugum margra því þetta var heimavist Íþróttakennaraskóla Íslands um árabil. Starfsemi skólans flutti til Reykjavíkur þegar Háskóli Íslands ákvað að flytja námið í bæinn. Í framtíðinni munu þar dvelja nemendur á ný. Þeir eru öllu yngri því nemendurnir verða 9. bekkjar grunnskóla landsins sem munu dvelja þar í viku í senn yfir skólaárið, frá mánudegi til föstudags, slökkva á símunum sínum og eru í útivist og félagsfærni alla skólavikuna.
Fjöldi fólks var við undirritunina í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni í gær og rifjuðu margir upp dvöl sína þar. Framkvæmdir standa nú yfir í húsinu. Margir gamlir munir frá fyrri árum fundust þar og voru þeir til sýnis. Þar á meðal var áritaður bolti frá 12. Landsmóti UMFÍ sem haldið var á Laugarvatni árið 1965. Margar áritanir voru á boltanum, þar á meðal Rúnars Júlíussonar. Töldu gestir víst að tónlistarmaðurinn góðkunni hafi leikið þar með boltann.
Lyftistöng fyrir Bláskógabyggð
Fyrir undirritunina sagði Helgi Kjartansson sveitarstjórnina hafa skoðað vel hvaða starfsemi geti verið í húsinu. Hann sagði samstarf við UMFÍ bjóða upp á gott samband til langs tíma. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann þetta verða lyftistöng fyrir Bláskógabyggð.
„Við komum Íþróttamiðstöðinni í notkun og nýtum betur sundlaug og íþróttahús og eflum að nýju þá íþrótta- og útivistarhefð sem Laugarvatn var þekkt fyrir“.
Helgi benti á að ástand hússins hafi verið orðið bágborið. Bláskógabyggð leggi í verulegan kostnað við viðhald og endurnýjun Íþróttamiðstöðvarinnar í ár. Heilmiklar framkvæmdir standa þar nú yfir.
Eykur fjölbreytni UMFÍ
Haukur sagði við undirritunina sögu skólastarfs á Laugarvatni næstum aldargamla og sé gaman að UMFÍ sé að verða hluti af þeirri sögu. Hann benti á að aðsókn í Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ hafi aukist með hverju árinu enda fari mjög gott orð af starfinu.
„Staðsetningin hér á Laugarvatni gefur okkur möguleika á að auka við fjölbreytni starfsins,“ sagði hann.
Að undirritun lokinni fóru þeir Haukur og Helgi út á lóð íþróttamiðstöðvarinnar, tóku niður fána Bláskógabyggðar sem þar blakti við hún og drógu fána UMFÍ að húni.
Húsið opið fyrir alla
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, segir húsnæðið verða nýtt virka daga yfir vetrartímann en um helgar og sumrin sé það laust. Til stendur að Íþróttasamband fatlaðra reki þar sumarbúðir í hálfan mánuð á sumrin og er aðstaðan laus fyrir aðra, ekki síst ungmenna- og íþróttafélög sem geta nýtt hana til fræðslustarf, hópeflis og jafnvel sem æfingabúðir.
Hér má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni.