Fara á efnissvæði
15. mars 2022

Fjöldi viðurkenninga á ársþingi UMSS

„Þetta fór allt mjög vel. En þótt síðustu tvö ár hafi verið með rafrænum hætti þá mættu fáir því COVID-faraldurinn herjar grimmt á Skagfirðinga,“ segir Thelma Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) um 102. ársþing sambandsins sem  haldið var laugardaginn 12. mars síðastliðinn.

Á þinginu var Gunnar Þór Gestsson endurkjörinn formaður sambandsins. Breyting varð þó á stjórn UMSS. Jóel Árnason og Kolbrún Passaro komu ný inn við hlið Þorvaldar Gröndal og Þuríðar Elínar Þórarinsdóttur. Í varastjórn voru nýir fulltrúar kjörnir inn; þau Finnbogi Bjarnason, Rósa María Vésteinsdóttir og S. Fjóla Viktorsdóttir.

UMFÍ veiti nokkrum félögum úr hreyfingunni viðurkenningar. Þeir Gunnar Sigurðsson, fyrrverandi íþróttamaður Skagafjarðar og þjálfari, og Bjössi Hansen, voru báðir sæmdir gullmerki UMFÍ.

Starfsmerki fengu þau Klara Helgadóttir, fyrrum formaður UMSS, sem hún hlaut fyrir sitt starf innan hreyfingarinnar; og þau Jóhannes Þórðarson og Helga Eyjólfsdóttir fyrir þeirra framtaksemi síðustu ára.

Garðar Svansson fulltrúi ÍSÍ veitti jafnframt Gunnari Sigurðssyni silfurmerki ÍSÍ fyrir hans framtak til hreyfingarinnar og Ómari Braga Stefánssyni, framkvæmdastjóra móta UMFÍ, gullmerki ÍSÍ fyrir hans vinnu og framtak til hreyfingarinnar á öllu landinu.  

Tilkynnt var um Íþróttamann, lið og þjálfara ársins 2021 en sú athöfn fer fram milli jóla og nýsárs en hefur fallið niður síðustu tvö ár. Ákveðið var að veita þeim sem kjörnir voru í desember 2021 viðurkenninguna á þinginu í ár.

Ýmsar aðrar viðurkenningar voru opinberaðar á þingi UMSS. Kvennasveit Golfklúbbs Skagafjarðar var kosin lið ársins, Helgi Jóhannesson hjá nýstofnaðri Badmintondeild UMF Tindastóls, var kosinn þjálfari ársins 2021. Þá var frjálsíþrótta- og tugþrautakappinn Ísak Óli Traustason kjörinn íþróttamaður UMSS 2021. Þetta er þriðja árið í röð sem Ísak Óli hampar titlinum fyrir afrek sín bæði innanlands og utanlands á árinu sem leið. Hann varð Íslandsmeistari í sjöþraut, grindarhlaupi innan og utanhúss og stangarstökki auk þess sem hann bætti sitt besta í flestum greinum. Ísak  keppti fyrir hönd Íslands á Evrópubikarnum í Frjálsum íþróttum í Búlgaríu síðastliðið sumar og var kjörinn fjölþrautakappi Frjálsíþróttasambands Íslands 2021.

Þá geta öll aðildarfélög og deildir innan UMSS tilnefnt einn pilt og eina stúlku sem hlýtur Hvatningarverðlaun UMSS. Tilnefninginn skal veitt þeim íþróttamanni sem er áhugasamur, með góða ástundun, sýnir góða hegðun innan vallar sem utan, er góður félagi og telst vera góð fyrirmynd annara unglinga. Tólf krakkar voru tilnefnir frá sínu félagi fyrir sitt framlag Munu þessir krakkar auk þeirra sem áttu að fá þessa viðurkenningu árið 2020 fá viðurkenningar platta á næstu vikum.