Fjölmenni á fundi um skattamál
„Skattamálin eru vissulega mál sem varða öll félög og íþróttahéruðin á höfuðborgarsvæðinu töldu mikilvægt að kalla forsvarsfólk félaganna saman til að ræða þau í ljósi nýlegs erindis Skattsins,“ segir Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), um fund sem bandalagið hélt síðdegis í gær í samstarfi við Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH). Málefni fundarins var tiltölulega nýframkomið erindi frá Skattinum varðandi staðgreiðslu skatta og tryggingagjalds vegna greiðslna til íþróttamanna og þjálfara íþróttafélaga.
Fulltrúum íþróttafélaga og deilda félaga á höfuðborgarsvæðinu var boðið á fundinn og var vel mætt eða í kringum 100 manns.
Frímann segir góða mætingu staðfesta augljósan áhuga á efninu. Í fundarboði sagði að erindi Skattsins boði verulegar áherslubreytingar af hálfu stjórnvalda, sem geti haft stórkostleg áhrif á rekstrargrundvöll íþróttastarfs hér á landi.
„Fundurinn tókst vel. Við sem erum í forystu ÍBH, UMSK og ÍBR höfum verið að hittast og ræða hvernig við getum unnið meira saman, til dæmis varðandi fræðslu og umræðu um sameiginleg málefni. Þessi fundur var afrakstur af þeirri vinnu og við munum halda áfram á þessari braut og fleiri verkefni eru á dagskránni á næstunni,“ segir Frímann.
Á fundinum sagði Kári Steinn Reynisson, rekstrarstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), frá viðræðum skattayfirvalda og ÍSÍ varðandi skattamálin. Eftir að Kári lauk erindi sínu var boðið upp á spurningar og vangaveltur úr sal og sköpuðust miklar umræður.
Erindi skattsins í hnotskurn
Staðgreiðsla skatta og tryggingagjalds vegna greiðslna til íþróttamanna og þjálfara
Samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda er launagreiðendum, þ.e. þeim sem inna af hendi eða reikna greiðslur sem teljast vera laun, skylt að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af launum og öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum, svo og af reiknuðu endurgjaldi vegna eigin vinnu eða sjálfstæðrar starfsemi. Launagreiðanda ber einnig í staðgreiðslu að inna af hendi tryggingagjald af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári og af eigin reiknuðu endurgjaldi.
Af hálfu skattyfirvalda hefur legið fyrir um langt skeið og almennt gengið út frá að íþróttamenn sem þiggja einhverjar greiðslur frá íþróttafélagi eða fyrir milligöngu þess teljist í skilningi skattalaga launþegar en ekki verktakar. Almennt séð gilda sömu sjónarmið um þjálfara sem þiggja slíkar greiðslur.
Ríkisskattstjóri hefur orðið þess áskynja að misbrestur er á skilum íþróttafélaga á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi. Af þessum sökum hefur ríkisskattstjóri í hyggju að taka til skoðunar í upphafi næsta árs hvernig skilum þessum er háttað. Fyrirhugað er að endurtaka skoðun á skattskilum íþróttafélaga með reglubundnum hætti í framtíðinni. Vonast er til þess að forsvarsmenn íþróttafélaga taki höndum saman með skattyfirvöldum að koma skilum þessum í rétt lag til framtíðar horft.
Tekið skal fram að upplýsinga- og greiðsluskylda hvílir á aðalstjórnum félaga og kann vanræksla á þeim skyldum að leiða til refsiábyrgðar.
Nánari upplýsingar um framangreint er m.a. að finna í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um skattskyldu íþróttastarfsemi, sem upphaflega voru gefnar út 2004 en síðast endurútgefnar í febrúar 2024, í góðri samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.