Fara á efnissvæði
04. janúar 2018

Fjölnir heldur námskeið fyrir markmenn í handbolta

Vanja Radic, markmannsþjálfari frá Bosníu, verður með námskeið fyrir markmenn í handbolta um næstu helgi (dagana 6.-7. janúar). Námskeiðið er opið öllum markmönnum sem fæddir eru á árunum 1995-2006. Ungmennafélagið Fjölnir í Grafarvogi stendur fyrir námskeiðinu og komu Radic hingað til lands.

Takmarkað pláss verður í boði enda um sérstakan viðburð að ræða.

 

Hefur beðið lengi eftir Radic

Arnór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar Fjölnis, segist hafa fylgst með Radic síðastliðin tvö ár eða svo. Hún býr yfir mikilli reynslu og þekkingu bæði sem leikmaður og þjálfari. Ásamt því að sinna starfi sem markmannsþjálfari finnska handknattleikssambandsins er hún yfirþjálfari alþjóðlega markmannskólans í Króatíu sem hefur notið gífurlegra vinsælda undanfarin ár. Radic hefur verið á ferðalagi upp á síðkastið og haldið markmannsnámskeið víða um heim.

Arnór segist hafa lengið viljað fá hana hingað til lands í því skyni að efla handboltann.

Sjálfur sneri Arnór aftur heim til Íslands í fyrravor eftir tveggja ára dvöl í Noregi. Þar var hann í framhaldsnámi í íþróttastjórnun og sem þjálfari hjá Molde og íþróttastjóri hjá Fjellhammer.

Hann segir fátítt að félög flytji inn markmannsþjálfara eins og Fjölnir geri nú.

„Ég vil að við sækjum fram. Bæði Fjölnir og handboltinn. Það er markmið okkar í Fjölni að bjóða upp á eitthvað nýtt, sem önnur félög eru ekki með,“ segir hann og bendir á að önnur nýjung í starfi Fjölnis verði alþjóðlegt handboltamót fyrir 12-15 ára í sumar. Verið er að leggja lokahönd á markaðssetningarefnið hér heima og er allt að fara á fullt.

Skráning og nánari upplýsingar á arnor@fjolnir.is

Auglýsingin um námskeiðið á Facebook

Vefsíða Vönju Radic