Fara á efnissvæði
17. október 2021

Fjölnir, Keflavík og UMFN hljóta Hvatningarverðlaun UMFÍ

Ungmennafélagið Fjölnir, Ungmennafélag Njarðvíkur og Keflavík íþrótta- og ungmennafélag, hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ á Húsavík um helgina.

Fjölnir hlýtur verðlaunin fyrir verkefnið Áfram lestur og UMFN og Keflavík fyrir samstarfsverkefni fyrir börn með mismunandi stuðningsþarfir.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, afhenti fulltrúm félaganna Hvatningarverðlaunin og var þetta með síðustu verkum hans áður en hann steig úr stóli formanns.

 

Verkefni Fjölnis

Upphafið að átakinu Áfram lestur varð til hjá Barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fjölnis. Vísbendingar höfðu þá komið fram um mikla afturför í lestri grunnskólabarna og ákváð forsvarsfólk deildarinnar að nýta tenginguna við ungmennafélagið til að koma á legg lestrarátaki og hvetja iðkendur til að halda áfram að lesa bækur yfir sumartímann. Fjölnir lét útbúa bókamerki sem þjálfarar dreifðu til ungra iðkenda með myndum af fyrirmyndum félagsins. Eins og öll góð verk þá verður allt betra með samvinnu. Fjölnir vann með starfsfólki Borgarbókasafnsins að verkefninu því iðkendur gátu farið í Borgarbókasafnið i Spönginni og valið bækur úr sérstökum bókastandi sem þar var merktur Fjölni og íþróttafólk hafði valið í. Leiðtogar og fyrirmyndir Fjölnis voru jafnframt sýnileg á samfélagsmiðlum, hvöttu þau yngri iðkendur til að fara á bókasafnið og lesa yfir sumartímann.

Verkefnið er til fyrirmyndar enda koma þar saman ólíkir þræðir og styður hver við annan.

UMFÍ hrósar Keflavík íþrótta- og ungmennafélagi fyrir að sameina kraftana með Ungmennafélagi Njarðvíkur til að mæta þörfum iðkenda og auka framboð á íþróttaæfingum.

 

Samstarfsverkefni Keflavíkur og UMFN

Keflavík íþrótta- og ungmennafélag og Ungmennafélag Njarðvíkur sameinuðu krafta sína til að auka þátttöku barna með mismunandi stuðningsþarfir og buðu upp á sameiginlegt námskeið í knattspyrnu og körfubolta. Þetta verkefni er meðal annars afrakstur af samfélagsverkefninu Allir með í Reykjanesbæ þar sem stuðlað er að jöfnum tækifærum barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi. Það er einkar ánægjulegt að sjá stór og öflug félög vinna saman að sameiginlegum markmiðum.