Fara á efnissvæði
28. nóvember 2018

Fjölnishöllin vígð í Grafarvogi

Nýtt alhliða íþróttahús Fjölnis var tekið í notkun við hátíðlega athöfn í Grafarvogi í gær. Félagið fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir en það var stofnað í febrúar árið 1988. Viðstaddir opnunina voru meðal annars Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, sem er eigandi Egilshallar. Reginn byggði íþróttahúsið og mun sjá um rekstur þess. Húsið hefur verið rúmt ár í byggingu en skóflustunga að því var tekin í apríl árið 2017.

Nýja íþróttahúsið er 2.500 fermetrar og er horft til þess að með því fjölgi valkostum til íþróttaiðkunar í Egilshöll. Húsið rúmar tvo handbolta- og körfuboltavelli og þar fá körfuknattleiks- og handboltadeildir æfinga- og keppnisaðstöðu. Borgarholtsskóli fær aðstöðu fyrir afreksíþróttabraut ásamt öðru íþróttastarfi.

Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, sagði í ávarpi sínu við opnunina í gær undirbúning að byggingu íþróttahússins hafa tekið mörg ár. Nú sé komin aðstaða sem sé til fyrirmyndar og muni húsið heita Fjölnishöllin. 

Jón Karl sagði jafnframt stofnendur Fjölnis hafa verið frumkvöðla sem hafi ekki getað ímyndað sér hvað félagið yrði stórt. Nú, 30 árum síðar, sé Fjölnir orðið að stórveldi í íþróttum, langstærsta félag landsins. „Við erum orðin að algjöru stórveldi í íþróttum. Sumir telja titla en aðrir ár. Við teljum ykkur, iðkendurna,“ sagði Jón Karl og þakkaði öllum sem hafa komið að byggingu íþróttahúsins og félaginu í gegnum tíðina, þar á meðal um 200 starfsmönnum og þjálfurum og þúsundum sjálfboðaliða sem hafa komið að starfi Fjölnis.

Egilshöll er stærsta afþreyingar- og íþróttamiðstöð á Íslandi en hún er um 31 þúsund fermetrar. Þar er knattspyrnusalur, skólaíþróttasalur, skautahöll, skotæfingasvæði, kvikmyndahús og keiluhöll auk fimleikahúss og nú með alhliða íþróttahús.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, félagsins sem á Egilshöll, sagði æ fleiri sækja í Egilshöll en á síðasta ári hafi 1,4 milljónir manna komið í húsið. Það jafngildir rúmlega 3.800 manns á hverjum einasta degi.

 

Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru í gær. Þar á meðal eru þeir Guðmundur L. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Fjölnis, ásamt Jóni Karli Ólafssyni, formanni Fjölnis, auk Auðar Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ, sem var viðstödd þennan gleðilega viðburð. Á síðustu tveimur myndunum má sjá endurgerð af fyrstu búningum Fjölnis sem búnir voru til í tilefni af 30 ára afmælinu. 

Fjölnir er einn 29 sambandsaðila UMFÍ. Sambandsaðilarnir eru 18 héraðssambönd og 11 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 340 félög innan UMFÍ með rúmlega 160 þúsund félagsmenn.