Fara á efnissvæði
12. júlí 2024

Fjórða skipti GDRN á Unglingalandsmót

„Þetta verður bara æðislegt. Það er svo gaman að spila fyrir ungt fólk. Það er svo einlægt en mjög harðir og óþolinmóðir gagnrýnendur. Ef þau eru ekki sátt þá eru þau farin. Maður verður þess vegna að lofa góðum tónleikum og standa sig,“ segir Guðrún Ýr Eyfjörða, betur þekkt sem GDRN. Hún kemur fram á lokakvöldi Unglingalandsmóts UMFÍ, sem fram fer í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. 

Þetta er fjórða skiptið sem Guðrún kemur á Unglingalandsmót. Hún hefur tvisvar komið sem keppandi og einu sinni áður sem tónlistarkona. 

 

Vinkonurnar kepptu

Guðrún tók fyrst þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki árið 2009. „Ég fór á fyrsta mótið með bestu vinkonu minni og mömmu hennar. Ég æfði fótbolta með Aftureldingu frá fimm ára aldri og þurfti að hreyfa mig mikið. Við skráðum okkur ekki í neitt lið og spiluðum þarna með stelpum frá Sauðárkróki. En svo skráði ég mig líka í frjálsar af því að það var hægt að taka þátt í öllu. Það var æðislegta gaman,‟ segir hún. Ári síðar fór hún aftur á Unglingalandsmótið, sem þá var í Borgarnesi.

Guðrún varð fyrir því að slíta krossband 15 ára. Þá var hún ásamt fleiri jafnöldrum farin að spila í meistaraflokki kvenna og æfði of mikið. Hún fór í aðgerð en reif eftir það liðþófa og fleira fylgdi í kjölfarið. Þegar hún var byrjuð í framhaldsskóla hætti hún knattspyrnuiðkun og fór síðan að snúa sér að tónlist og leik. Það leiddi náttúrlega til þess að hún kom fram á tónleikum mótsins í Höfn í Hornafirði árið 2019.

 

Hellingur af tónlist

Eins og áður sagði kemur GDRN fram á lokakvöldi Unglingalandsmótsins. Nóg verður um að vera alveg frá fyrsta degi. Mótið hefst fimmtudagskvöldið 1. ágúst. Strax þá um kvöldið stíga á stokk DJ Ísak og Ernir. Á föstudeginum koma fram vegabréfabræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór með Siggu Ózk. Daginn eftir heldur uppi stuðinu hljómsveitin Meginstreymi auk þess sem Björgvin úr Idolinu kemur fram. GDRN verður svo á lokakvöldinu ásamt Júlí Heiðari og Orra Sveins, sem stýrir brekkusöng.

Jón Jónsson hefur margoft komið fram á Unglingalandsmóti UMFÍ og mun hann m.a. kom fram á setningu mótsins föstudaginn 2. ágúst.

 

Líf og fjör á tjaldsvæðinu

Allir tónleikarnir fara fram í risastóru samkomutjaldi sem sett verður upp á tjaldsvæði Unglingalandsmótsins og bókað að þar verður rosalegt fjör alla helgina. Eins og alltaf verður gríðarlegur fjöldi mótsgesta á tjaldsvæðinu. Á tjaldsvæðinu eru sambandsaðilar UMFÍ paraðir saman. 

Tjaldsvæðið opnar klukkan 15:00 miðvikudaginn 31. júlí. Björgunarsveitarfólk mun standa vaktina og vakta svæðin allan sólarhringinn.

Miðaverð á Unglingalandsmót UMFÍ er 9.400 krónur fyrir þátttakendur 11 – 18 ára. Innifalið í miðaverðinu er aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna, tónleika og uppákomur sem verða öll kvöldin fjögur, afþreyingu og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Það eina sem bætist við er aðgangur að rafmagni ef fólk þarf á slíku að halda á tjaldsvæðinu. Verð fyrir rafmagn er  4.900 krónur til 29. júlí. Eftir það hækkað það í 6.900 krónur. 

Aðgangur að rafmagni er keyptur á sama stað og fólk skráir sig á mótið í Sportabler.

Allir geta tekið þátt í mótinu enda þarf viðkomandi á aldrinum 11 – 18 ára hvorki að vera skráður í íþróttafélag né ungmennafélag og ekki heldur stunda íþróttir. Þátttakandinn getur skráð sig í allskonar greinar og allar sem áhugi er að taka þátt í. 

Skoða dagskránna

 

Tónleikadagskráin:

  • Fimmtudagur 1. ágúst: DJ Ísak og Ernir
  • Föstudagur 2. ágúst: Jón Jónsson og Friðrik Dór og Sigga Ózk.
  • Laugardagur 3. ágúst: Hljómsveitin Meginstreymi og Björgvin úr Idol.
  • Sunnudagur 4. ágúst: GDRN, Júlí Heiðar og brekkusöngur með Orra Sveins.

 

Allar ítarlegri upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ