Fara á efnissvæði
21. október 2023

Fjórir heiðraðir með gullmerki UMFÍ

Þeim Hjörleifi Kr. Hjörleifssyni og Garðari Svanssyni, ásamt þeim Gissuri Jónssyni og Lárusi B. Lárussyni voru veitt gullmerki á sambandsþingi UMFÍ. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, afhenti þeim gullmerkin og sagði fáein orð við tilefnið.

Hjörleifur er formaður Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH) og Garðar í stjórn sambandsins. Garðar situr jafnframt í stjórn ÍSÍ. 

Þeir Gissur og Lárus hafa setið í stjórn UMFÍ um nokkurra ára skeið en gefa ekki kost á sér áfram. Kosið er til stjórnar á þinginu um helgina.  

Nánar um gullmerkin

Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson

Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson hefur verið sjálfboðaliði í íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni frá árinu 1994. Hann gerði eins og við mörg og byrjaði á því að fylgja börnum sínum íþróttastarfi. Það leiddi hann í stjórnarstörf. Eins og Hjörleifur sagði nýverið í viðtali í Skinfaxa þá gefur það honum mikið að láta gott af sér leiða. Hann kann líka þann galdur að dreifa álagi starfsins á fleiri herðar en sínar eigin. Hjörleifur hefur eins og sannur sjálfboðaliði gegnt mörgum mismunandi störfum innan stjórnar Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu og er nú formaður þess. Hann var jafnframt formaður Landsmótsnefndar UMFÍ 50+ þegar mótið var haldið í Stykkishólmi í sumar. Án þess að ætlunin sé að halla á nokkurn mann þá er Hjörleifur ein af traustari stoðum hreyfingarinnar. Sannkölluð fyrirmynd. 

 
Garðar Svansson 
Við þekkjum öll Garðar Svansson. Hann hefur eins og Hjörleifur Kristinn gegnt mörgum störfum innan stjórnar Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu. Garðar gefur og gefur af sér. Hann hefur setið í allskonar sætum í stjórnum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og flakkað um allar koppagrundir sem bæði fulltrúi UMFÍ og ÍSÍ á þingum og fundum sambandsaðila okkar og er ötull málsvari hreyfingarinnar. Oftar en ekki hefur Garðar farið á fundi og þing til að veita ýmis merki. En nú er komið að honum.  
 

Gissur Jónsson 
Hornfirðingurinn Gissur Jónsson kemur frá sambandssvæði Ungmennasambandsins Úlfljóts. Leið hann hefur alla tíð legið meðfram suðurströndinni og hefur hann verið öflugur liðsfélagi hjá ungmennafélögum í suðurkjördæmi.  

Gissur var kröftugur félagsmaður í knattspyrnudeild Selfoss og haldið þar um mikið starf, svo sem getraunastarf Selfoss. Hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Ungmennafélags Selfoss, hann tók sæti í varastjórn UMFÍ á sambandsþingi fyrir fjórum árum og tekið þar virkan þátt í starfi hreyfingarinnar, setið í framkvæmdanefnd um Unglingalandsmót UMFÍ þegar það var haldið á Selfossi sumarið 2022 og reynst afar dýrmætur bakhjarl í öllu starfi íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar.  

 
Lárus B. Lárusson 
Það er ekki á hreinu hvort flugstjórinn Lárus B. Lárusson eigi að nefna Garðbæing eða Seltirning. En það skiptir sosum ekki öllu því hann er á sambandssvæði Ungmennasambands Kjalarnesþings. Lárus er sannkallaður félagsmálamaður og kemur sér í stjórnir hvar sem hann er niðurkominn. Lárus var í bæjarstjórn Seltjarnarness, sinnt uppbyggingu á íþróttastarfi sem formaður íþrótta- og tómstundaráðs og leiddi undirbúningshóp um stækkun fimleikahúss bæjarins. Þá er nú fátt nefnt.  

Lárus hefur fest sig verulega í sessi á Seltjarnarnesi og unnið gott og óeigingjarnt starf í stjórn barna- og unglingaráðs handknattleiksdeildar Gróttu um árabil. Hann tók sæti í stjórn UMSK árið 2014 og í stjórn UMFÍ árið 2017. 

Lárus er úrræðagóður og býr yfir þeim hæfileika að geta horft á málin frá nokkrum sjónarhornum. En hann er fastur fyrir þegar þess er þörf og eru þar flugstjórnarhæfileikarnir vel nýttir.