Fara á efnissvæði
23. janúar 2018

Fleiri íþróttakonur eiga eftir að segja sögu sína

„Ég upplifi heilmikil og sterk viðbrögð frá íþróttahreyfingunni, sérsamböndum og fleirum. Maður hefur ekki alltaf tilfinningu fyrir því að eitthvað muni breyta nokkru. Öðru máli gegnir um #metoo. Þetta er bylting,“ segir Anna Soffía Víkingsdóttir, ein þeirra sem var í forsvari fyrir hópi íþróttakvenna sem á dögunum steig fram undir myllumerkinu #metoo og greindi frá kynbundnu ofbeldi og áreiti í heimi íþróttanna. 

Hópur íþróttakvenna sendi frá sér sögur um ofbeldi fimmtudaginn 11. janúar. Þar voru sagðar 62 sögur kvenna úr heimi íþróttanna af kynbundinni mismunun, kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi.

Í yfirlýsingu sem með fylgdi kröfðust konurnar þess að stúlkur og konur fái iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga.

Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 konur nafn sitt.

Anna Soffía segist hafa upplifað það sérstaklega sterkt að eitthvað sé í loftinu, hafi jafnvel breyst.

Strax daginn eftir fóru þær Anna Soffía, Hafdís Inga Hinriksdóttir og Nína Björnsdóttir á fund Lilju Alfreðsdóttur menntamáaráðherra vegna málsins. Þar var ákveðið að stofna starfs­hóp á veg­um mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is­ins um gerð aðgerðaáætl­un­ar um það  hvernig eigi að bregðast kyn­bund­inni áreitni inn­an íþrótta- og æsku­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar og samræma bæði verklag og fræðslu. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, var líka á fundinum ásamt forseta ÍSÍ og hópi íþróttakvenna.

 

Frétt um starfshópinn

 

Anna segir viðbrögð íþróttahreyfingarinnar góð en mikilvægt sé að halda áfram með málið. 

„Maður upplifir að allir vilji bæta umhverfið. Þetta má nefnilega ekki gleymast. Það er alltaf hættan með svona mál að þau dagi uppi. Við þurfum að halda áfram að ýta á eftir breytingunum. Allir þurfa að taka höndum saman í þessu máli," segir hún.

En hvað finnst þér að íþróttahreyfingin eigi að gera?

Eitt sem mér finnst rosalega mikilvægt í þessu öllu er að upplýsingarnar liggi fyrir, hverjir verkferlarnir og hverjar siðareglurnar eru og hvert fórnalömb ofbeldis geta leitað. Það þarf að skila sér til íþróttafélaganna. Það er til fullt af efni sem bæði ÍSÍ og UMFÍ hafa gert. En þetta efni er ekkert að skila sér inn í íþróttastarfið. Það er þýðir ekkert að einhver einn og einn formaður viti af þessu efni. Iðkendur þurfa að vita af því líka. Það vantar því átak sem gerir efnið sýnilegt innan íþróttafélaganna."

 

Félögum sett skilyrði

Anna Soffía segir stórt skref hafa verið stigið í Hafnarfirði í síðustu viku þegar bæjarstjórn þar samþykkti bókun um skilyrði fyrir fjárveitingum til íþróttafélaga og þeirra sem bjóða upp á tómstundariðkun fyrir börn og unglinga. Meðal þeirra skilyrða er að félögin setji sér siðareglur, geri viðbragðsáætlanir og fræði sitt fólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Félögin eiga jafnframt að stofna óháð fagráð sem tekur á móti kvörtunum og ábendingum frá iðkendum. Þeim félögum sem fá styrki frá Hafnarfjarðarbæ eða gera samninga við bæjarfélagið verður gert að sýna fram á að farið sé eftir jafnréttislögum í starfinu og að aðgerðaráætlun sé skýr.

„Ég vona að fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið og setji sambærilegar reglur og skilyrði.

 

Frétt um íþróttafélögin í Hafnarfirði

 

Anna Soffía segir sögur íþróttakvenna sýna betur en áður hversu mikið ójafnvægi er í íþróttum, sérstaklega í afreksíþróttum. Ein manneskja geti lika eyðilagt svo margt.

Hún segir fleiri ofbeldissögur til úr heimi íþróttanna en hafi verið sagðar 11. janúar. Sumar líti dagsins ljós en aðrar ekki.

„Það er fullt af sögum þarna úti sem verða aldrei sagðar. Það opnar mikið af sárum að segja þær. Hinsvegar vill ég að íþróttakonur viti að ég er enn til staðar, ef einhverja vantar einhvern til þess að spjalla við,“ segir Anna Soffía.

 

Undirstaðan er virðing fyrir næsta manni

Stjórnmálaflokkarnir héldu sameiginlegan morgunverðarfund um metoo-byltinguna mánudaginn 22. janúar. Þar sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, mikilvægt að allir verði með og takist á við málið. Hún sagði undirstöðuna í samskiptareglum vera virðingu fyr­ir næsta manni. 

Hún nefndi jafnframt að stundum færu of­beld­is­mál alla leið í gegn­um dóms­kerfið. Þolandi væri samt sem áður dæmd­ur og fengi ekki sam­fé­lags­leg­an stuðning. Dæmi um slíkt var Embla Krist­ín­ar­dótt­ir, sem sagði sína sögu í síðustu viku. Henni var nauðgað, maður­inn dæmd­ur en hún fékk sam­fé­lagið á móti sér.

 

Frétt af fundi stjórnmálaflokkanna

 

#METOO - hvað get ég gert?