Fara á efnissvæði
02. desember 2024

Fögnuðu 100 ára afmæli Umf. Hvatar

Þeir Björn Vignir Björnsson, Hilmar Þór Hilmarsson og Ólafur Sigfús Benediktsson voru sæmdir starfsmerki UMFÍ á aldarafmæli Ungmennafélagsins Hvatar á Blönduósi á dögunum. Þeir hafa unnið dyggilegt sjálfboðaliðastarf fyrir félagið í gegnum tíðina. 

Haldið var upp á afmæli með pompi og prakt 23. nóvember síðastliðinn. Fyrri hluta dagsins var fjölskylduskemmtun en seinni hluta dagsins var formleg dagskrá þar sem gestir fluttu ávörp og veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf. 

Silfurmerki Hvatar var afhent í fyrsta sinn á 100 ára afmælinu. Þau hlutu: Þórhalla Guðbjartsdóttir, Auðunn Steinn Sigurðsson, Ólafur Þorsteinsson, Páll Ingþór Kristinsson, Guðmundur F. Haraldsson, Magdalena Berglind Björnsdóttir, Kári Kárason, Hilmar Þór Hilmarsson, Björn Vignir Björnsson og Stefán Hafsteinsson. 
Þær Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, Erla Ísafold Sigurðardóttir og Gunnlaug Kjartansdóttir fengu silfurmerki KSÍ og Steinunn Hulda Magnúsdóttir silfurmerki ÍSÍ.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, voru á meðal afmælisgesta. Jóhann Steinar hélt ávarp þar sem hann óskaði öllum til hamingju með daginn. Hann rifjaði upp markmið félagsins, að því hafi verið ætlað að stuðla að heilsueflingu fólks á svæðinu með íþróttaiðkun og heilbrigðum lífsstíl og styðja við þroska fólks með þátttöku í félagsstarfi. Enn sé unnið ef því enda þátttakan og gleðin kjarni starfsins, sem fólk kalli Ungmennafélagsanda. Jóhann Steinar sagði forsvarsfólk Hvatar mjög lausnamiðað enda hafi það endurspeglast í Hvatningarverðlaunum UMFÍ, sem félagið hlaut fyrir samstarf með Kormáki, Tindastóli og Fram. 

„Nýjungin í íþróttalífi landsins í dag eru svæðisstöðvar sem íþróttahreyfingin með stuðningi stjórnvalda hefur sett á laggirnar um allt land. Þetta eru átta starfsstöðvar sem ætlað er að greina þarfirnar á hverju svæði fyrir sig og hefja samtal við hagaðila með það fyrir augum að þjónusta fólk enn betur. Fyrstu verk lofa mjög góðu og það verður spennandi að sjá árangurinn af vinnunni á næstu misserum,“ sagði hann.

 

Ítarlegar um starfsmerkin

Björn Vignir Björnsson
Björn Vignir hlaut starfsmerki UMFÍ fyrir dyggilegt starf sitt fyrir knattspyrnudeild Hvatar til margra ára. Björn Vignir sat í stjórn knattspyrnudeildarinnar og hefur um árabil komið að undirbúningi og framkvæmd knattspynumótins „Smábæjaleikar Hvatar“ með mikilli sjálfboðaliðavinnu. Björn Vignir hefur í gegnum tíðina unnið ómetanlegt sjálfboðaliðastarf fyrir félagið.

Ólafur Sigfús
Ólafur Sigfús hefur unnið dyggilegt starf á sviði knattspyrnudeildar Hvatar og frjálsíþróttadeildar Hvatar til margra ára, auk þess að sitja í aðalstjórn félagsins. Ólafur Sigfús hefur um árabil komið að undirbúningi og framkvæmd „Smábæjaleika Hvatar“ með mikilli sjálfboðaliðavinnu. Ólafur Sigfús hefur í gegnum tíðina unnið ómetanlegt sjálfboðaliðastarf fyrir félagið jafnt innan vallar sem utan. Hann var um tíma fyrirliði meistaraflokkslið Hvatar í knattspyrnu.

Hilmar Þór Hilmarsson
Hilmar Þór hefur unnið dyggilegt starf í knattspyrnudeild Hvatar og stjórn aðaldeildar félagsins til margra ára. Hilmar Þór sat í stjórn knattspyrnudeildar og var um árabil formaður deildarinnar ásamt því að vera varaformaður Umf. Hvatar.