Fara á efnissvæði
27. júní 2019

Fólk skráir sig í fleiri greinar en áður

Þátttakendur á Landsmóti UMFÍ 50+ og gestir þeirra eru farnir að streyma inn í Neskaupstað til að gera sig klára fyrir mótið. Upplýsingamiðstöð mótsins opnaði í Verkmennaskólanum klukkan 17:00 í dag og voru þátttakendur þegar mættir þegar húsið opnaði.

Keppni í boccía, langfjölmennustu greininni á mótinu, hefst klukkan 9:00 í fyrramálið, föstudaginn 28. júní og verður keppt í íþróttahúsi bæjarins. Klukkan 17:00 hefst svo keppni í frjálsum íþróttum og verður mótið þá komið á fullt skrið. Þar fyrir utan verður boðið upp á allskonar greinar til að leika sér í, eins og fótboltapönnu, sjósund, kynningu á ringó og margt fleira. Mótið verður svo sett með formlegum hætti klukkan 20:30 í íþróttahúsinu á morgun, föstudag.

 

Allt klárt fyrir mótið

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Landsmóts UMFÍ 50+, segir marga vera að nýskrá sig á mótið í dag og marga til viðbótar vera að bæta við sig greinum.

„Þátttakendur vilja keppa í fleiri greinum en þeir ætluðu upphaflega að taka þátt í,“ segir hann. Á meðal nýjunga á mótinu sem heilla þátttakendur eru pílukast, frisbígolf og fleiri greinar.

Allt er orðið klárt fyrir mótið, að sögn Ómars Braga og hafa sérgreinastjórar verið á fullu á klára að hnýta síðustu hnútana.

Um 300 manns tekur þátt í mótinu.

Upplýsingamiðstöð og þjónustumiðstöð mótsins er opin til klukkan 22:00 á fimmtudag og opnar aftur klukkan 08:00 á föstudagsmorgun.

Allar upplýsingar um mótið er að finna á vef UMFÍ.