Fara á efnissvæði
28. september 2018

Foreldrar eignast nýja vini í gegnum íþróttir barnanna

Þau Samar E. Zahida, taekwondokona úr Ármanni, og körfuboltamaðurinn Maciej Baginski úr Njarðvík, mæla bæði með því að foreldrar barna af erlendum uppruna skrái börn sín í íþróttir.

 

Ferðast um heiminn

Foreldrar Samar skráðu hana og systur hennar í taekwondo svo hún gæti varið sig. Hún er fædd á Íslandi og var átta ára þegar hún hóf að æfa íþróttina. Nú er hún 19 ára og telur að taekwondo hafi gert meira fyrir hana en nokkuð annað. 

Samar hefur um árabil verið ein allra besta taekwondokona landsins, brautryðjandi í hópi kvenna í taekwondo og er í hópi okkar allra bestu keppenda í formum (poomsae). Hún hefur lent í verðlaunasætum á mörgum stórmótum og þykir góð fyrirmynd annarra keppenda og íþróttinni til mikils sóma.

„Ég hef fengið að ferðast um heiminn og kynnst mörgu fólki. Mér finnst greinin hafa opnað mig sem manneskju. Ég hef lært að setja mér markmið og þora að taka áhættu. Ef foreldrar mínir hefðu ekki ákveðið að við ættum að læra bardagaíþrótt þá hefði ég aldrei gert það,“ segir hún.

 

Íþróttir fyrir alla fjölskylduna

Maciej var fimm ára þegar fjölskylda hans fluttist frá Póllandi til Sandgerðis. Hann byrjaði þar í fótbolta en færði sig yfir í körfubolta þegar fjölskyldan fluttist til Njarðvíkur.

 

 

„Þetta er sannkallað fjölskyldusport, íþróttir eru fyrir alla,“ segir Maciej og hvetur alla foreldra til að skrá börn sín í íþróttir, sérstaklega þau sem flytja hingað frá öðrum löndum. Foreldrar hans hafi ferðast með honum á keppnir víða um land og þannig eignast nýja vini og aðlagast samfélaginu í gegnum þátttöku Maciej í íþróttum.

Íþróttir hafi því haft mikil jákvæð áhrif á fjölskylduna, að hans sögn.

 

Vertu með!

Samar og Maciej voru bæði með örerindi á fundi Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) sl. fimmtudag þar sem verkefninu Vertu með var ýtt úr vör. Verkefninu er ætlað að hvetja til þess að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Rannsóknir hafa sýnt að á Íslandi er talið að um 10% íbúa séu innflytjendur en samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda um 12% allra þeirra sem búa á Íslandi.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem Rannsókn og greining lagði fyrir alla nemendur í 8. – 10. bekk á Íslandi 2016 stunda 56% barna og ungmenna nær aldrei íþróttir þar sem engin íslenska er töluð á heimilinu og 46% barna og ungmenna stunda nær aldrei íþróttir þar sem íslenska er töluð ásamt öðru tungumáli.

Ljóst er að íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin getur lagt sitt lóð á vogarskálarnar og gert fleiri börnum kleift að stunda íþróttir. Það hefur sýnt sig að þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi er besta forvörnin og mikilvægt að bæta úr þessu.

 

Smelltu hér og Vertu með!