Foreldrar verði ekki viðstaddir æfingar barna á höfuðborgarsvæðinu
Á vikulegum fundi stjórnenda íþróttastarfs sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins í gær var ákveðið að auka aðgát í íþróttahúsum sveitarfélaganna og grípa til ýmissa ráðstafana fyrir utan hefðbundnar sóttvarnir. Þar á meðal fá foreldrar og forráðamenn barna ekki að vera viðstaddir æfingar og frístundastarf barna sinna og að starfsemi sem ekki tengist íþróttahúsunum er ekki leyfð. Ráðstafanirnar eiga að gilda í tæpan hálfan mánuð eða til 12. október.
Mælt er með því að stjórnendur íþróttahúsa og frístundastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu sem ekki fellur undir sveitarfélögin gera slíkt hið sama. Tekið er fram að tilgangurinn er ekki að raska íþróttastarfi né keppnum barna, heldur að halda því gangandi.
Mikið um ný smit
Í bréfi sem fulltrúar sveitarfélaga hafa sent til íþrótta- og ungmennafélaga á höfuðborgarsvæðinu segir að nýgengni smita á höfuðborgarsvæðinu er umtalsvert hærra en á landinu. Frá því 14. september hafi komið upp 536 smit og af þeim eru 462 á höfuðborgarsvæðinu eða um 86%. Í takt við þessar tölur hafi einstaklingum í einangrun á höfuðborgarsvæðinu fjölgað úr 62 í 470 eða ríflega sjöfaldast. Það sama eigi við um einstaklinga í sóttkví.
Þá segir í bréfinu:
„Þessi aukning hefur haft mikil áhrif inn í skólasamfélagið og mikill fjöldi farið í sóttkví og víða hafa heilu árgangarnir og jafnvel skólarnir þurft að loka vegna þess hversu margir hafa verið settir í sóttkví. Þetta er alvarleg staða sem ekki er hægt að líta fram hjá og allir verða að leggja allt kapp á að tryggja að skóla og tómstundarstarf barna fædd 2005 og yngri og þar með talið íþróttastarf þeirra haldist óskert. Til að svo megi vera þarf að grípa til aukinna ráðstafana og færa ákveðnar fórnir og við ætlum okkur svona í fyrstu að vera það bjartsýn horfa til 12. október með fyrirvara um þróun mála hvað varðar frekari smit á okkar svæði.‟
Til verndar skólasamfélaginu
Á meðal þeirra ráðstafana sem gripið er til er eftirfarandi:
- Foreldrar og forráðamenn séu ekki viðstödd æfingar og frístundastarf barna.
- Hafi börn ekki þroska eða aldur til að vera ein í íþróttatíma t.d. íþróttaskóli barna þá fellur sá tími niður.
- Foreldrar og forráðamenn fylgi fyrirmælum um innkomu inn í íþróttasalina.
- Starfsemi sem ekki tengist íþróttahúsunum sé ekki leyfð t.d. íþróttastarf fullorðinna sem ekki tilheyrir ÍSÍ.
Ákvarðanir um næstu skref verða teknar með þessum aðilum og næsti fundur er fyrirhugaður fimmtudaginn 8. október og verða þær sendar til þeirra sem málið varðar. Fundað er reglulega með stjórnendum íþróttastarfs sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að samræma verklag, miðla reynslu og upplýsingum milli aðila.
Tekið er fram að takmarkanirnar eru vissulega íþyngjandi. En að mikilvægt sé að vernda skólasamfélagið og ungviðið og gera allt sem hægt er svo starfsemin raskist sem minnst.