Fara á efnissvæði
27. febrúar 2018

Formaður og varaformaður Tindastóls segja af sér - kynferðisbrot líðast ekki innan UMFÍ

Bæði formaður og varaformaður stjórnar knatt­spyrnu­deild­ar Tinda­stóls á Sauðárkróki sögðu af sér í gærkvöldi í kjölfar umfjöllunar í Stundinni á föstudag þar sem greint var frá kyn­ferðis­brot­um tveggja liðsmanna félagsins. Með ákvörðuninni vildu formaður og varaformaður axla ábyrgð á málinu. 

Fjöldi íþróttakvenna hefur stigið fram undir undir merkinu #MeToo síðan í janúar og greint frá kynbundnu ofbeldi og áreiti í heimi íþrótta. Í yfirlýsingur sem hópur íþróttakvenna sendi frá sér 11. janúar voru sagðar 62 sögur kvenna úr heimi íþróttanna af kynbundinni mismunun, kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. Íþróttakonurnar kröfðust þess að stúlkur og konur fái að iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga.

Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 konur nafn sitt.

Í umfjöllun Stundarinnar nú í lok febrúar stigu fram 12 stúlkur og sögðu sögu sína um samskipti við mann sem braut á þeim og spilaði knattspyrnu með Tindastóli.

Yfirlýsing þeirra vegna málsins var birt á vef Feykis.

Annar liðsmaður Tindastóls er Ragnar Þór Gunnarsson, sem dæmdur hafði verið fyrir kynferðisbrot. Stjórn Tindastóls sendi út stuðningsyfirlýsingu vegna Ragnars í maí árið 2017.

Í stuðningsyfirlýsingunni sagði: Á þeim tíma sem umrædd brot fóru fram var Ragnar Þór ekki leikmaður Tindastóls og hörmum við framferði leikmannsins á þeim tíma. Ragnar Þór nýtur stuðnings og trausts knattspyrnudeildar Tindastóls og munum við gera það sem við getum til að aðstoða hann í framhaldinu. Nú er það undir honum komið að halda áfram með líf sitt og læra af þeim mistökum sem gerð voru.

Í yfirlýsingu formanns og varaformanns Tindastóls nú segir orðrétt: „Sú yfirlýsing átti ekki rétt á sér og þykir okkur leitt að hafa ekki staðið með okkar fólki, hafa valdið því vonbrigðum og þolendum óþarfa sársauka.“

Í yfirlýsingunni segir að þeir vonist til að með brotthvarfi þeirra skapist friður um störf knatt­spyrnu­deild­ar Tinda­stóls og fé­lags­ins alls.

„Það er mik­il­vægt að íþrótta­hreyf­ing­in í heild sinni hlusti á þess­ar radd­ir þolenda og aðstand­enda þeirra, læri af þeim og bregðist við af full­um þunga. Ábyrgð stjórn­enda, formanna, for­svars­manna og þjálf­ara er þar mik­il. Stjórn­end­ur Ung­menna­fé­lags­ins Tinda­stóls vilja því sér­stak­lega taka fram að fé­lagið stend­ur með þolend­um. Við tök­um ábyrgð okk­ar al­var­lega og við tök­um málstað þolenda al­var­lega. Kyn­ferðis­legt of­beldi, kyn­ferðis­leg áreitni, einelti eða annað of­beldi verður ekki und­ir nein­um kring­um­stæðum liðið í starfi Ung­menna­fé­lags­ins Tinda­stóls.“

Stjórn Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) sendi auk þess frá sér yfirlýsingu á föstudag, sama dag og umfjöllun Stundarinnar um brotin birtist.

Þar segir að aðalstjórn UMSS hafi á fundi sínum 21. febrúar lýst yfir vilja til að eiga samstarf við ÍSÍ, UMFÍ og ráðuneyti íþróttamála um að tryggja sem best ofbeldislausa íþróttaiðkun fyrir alla.

 

Hvað get ég gert?

UMFÍ fordæmir óæskilega og neikvæða hegðun einnar manneskju gagnvart annarri og minnir á þær aðgerðar- og viðbragðsáætlanir sem til eru.  Samkvæmt Æskulýðslögum er óheimilt að ráða einstaklinga til starfa sem hafa hlotið refsidóma vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefna- eða kynferðisbrota. UMFÍ áréttar að æskilegt er að allir þeir sem starfa með börnum og ungmennum skili inn samþykkt fyrir því að aðildarfélag þeirra fái heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá. UMFÍ getur aðstoðað aðildarfélög sín við það.

UMFÍ er aðili að Æskulýðsvettvanginum ásamt Bandalagi íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Mikilvægt er að árétta að kynferðisbrot líðast ekki innan félagasamtaka Æskulýðsvettvangsins. Allar tilkynningar um kynferðisbrot skal taka alvarlega og er óheimilt að afgreiða ætluð kynferðisbrot innan aðildarfélaga.

Ef grunur vaknar um að barn eða ungmenni hafi orðið fyrir kynferðisbroti í félagsstarfi skal það tilkynnt til yfirmanns innan félags án tafar. Ef meintur gerandi er ábyrgðaraðili eða yfirmaður í starfi skal hafa beint samband við framkvæmdastjóra aðildarfélags eða fagráð Æskulýðsvettvangsins. 

 

Stjarnan fær sakavottorð allra þjálfara

Yfirlýsing frá UMFÍ: Hátterni í algjörri andstöðu við gildi ungmennafélagshreyfingarinnar

UMFÍ kannar umfang ofbeldis innan ungmennafélagshreyfingarinnar

Tilkynna óæskilega hegðun

Fleiri íþróttakonur eiga eftir að segja sögu sína

Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins