Fara á efnissvæði
30. nóvember 2021

Formaður UMFÍ fræddi Rótarý í Garðabæ um ungmennafélagshreyfinguna

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, hélt erindi um ungmennafélagshreyfinguna á hádegisfundi Rótarýklúbbsins Görðum í Garðabæ í gær, mánudaginn 29. nóvember. 

Jóhann Steinar fór yfir UMFÍ í stóru samhengi, sagði frá hlutverki og helstu verkefnum UMFÍ auk þess að fjalla ítarlega um sögu hreyfingarinnar og stefnumótun sem unnið hefur verið að á þessu ári. Jóhann sagði m.a. frá landsmótunum, Íþróttaveislu UMFÍ sem haldin verður á nokkrum stöðum á sambandssvæði UMSK á höfuðborgarsvæðinu næsta sumar í tilefni af aldarafmæli UMSK, Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið verður á Selfossi um verslunarmannahelgina 2022 og Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið verður í Borgarnesi.  

Fundurinn var vel sóttur og góður rómur gerður að ávarpi formannsins. 

Fundur Rótarýklúbbsins var í umsjón Æskulýðsnefndar klúbbsins. Í umfjöllun klúbbsins segir:
„Fjallaði Jóhann Steinar almennt um starfsemi UMFÍ, sem stofnað var á Þingvöllum 2. ágúst 1907 og hefur tengingar við sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem meðal annars má finna í fána UMFÍ sem er Hvítbláinn. Innan UMFÍ eru nú 26 sambandsaðilar. Félögin eru 450 og félagsmenn rúmlega 270 þúsund. UMFÍ er þjónustu- og samræmingaraðili fyrir sambandsaðila og aðildarfélög. Um hlutverk UMFÍ segir: „Starf þeirra félaga sem mynda UMFÍ snýst um að efla, styrkja og byggja upp fólk með íþrótta- félags- og æskulýðsstarfi. Hlutverk UMFÍ er að styrkja starf sambandsaðila og aðildarfélaga þeirra ásamt því að hvetja og styðja við bætta lýðheilsu landsmanna“. Sambandsaðilarnir eru mjög misjafnir að stærð, þannig hefur sá minnsti 275 félaga innan sinna vébanda en sá stærsti aftur á móti 150.000 félaga. Um framtíðarsýn sambandsins segir: „UMFÍ leggur áherslu á almenna þátttöku og lýðheilsu og með stuðningi sambandsins verður starf sambandsaðila og aðildarfélaga sterkara og öflugra“.
UMFÍ hefur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi þar sem sérstaklega er horft til: heilsu og velíðunar, jafnréttis kynjanna, aukins jöfnuðar og samvinnu um markmiðin. Þjónustumiðstöðvar UMFÍ eru í Reykjavík, Sauðárkróki og Laugarvatni. Stærstu verkefni UMFÍ eru unglingalandsmótin fyrir 11-18 ára, landsmótin fyrir 50 ára og eldri og íþróttaveisla UMFÍ fyrir 18 ára og eldri. Þá stendur sambandið fyrir ungmennabúðum á Laugarvatni fyrir 15 ára nemendur og kennara þeirra.
Í lok erindis síns minnti Jóhann Steinar á ummælum Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands um ungmennafélagsandann: „Andi UMFÍ er að bæta sjálfan sig og samfélagið um leið“.“

Hér má sjá nokkrar myndir frá hádegisfundinum.