Fara á efnissvæði
23. mars 2020

Formaður UMFÍ: Hlúum hvert að öðru og gætum þess að öðrum líði vel

Ég vil í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðfélaginu hvetja alla til samstöðu í þeim mikilvægu aðgerðum sem nauðsynlegt er að grípa til og hafa verið boðaðar. Ljóst er að útbreiðsla COVID-19 veirunnar spyr hvorki um stétt né stöðu. Enginn getur skorast undan þátttöku í varnaraðgerðum sem eru í gangi eða verða settar á til að hefta útbreiðslu hennar. Við í ungmennafélagshreyfingunni verðum að framfylgja þessum aðgerðum en gæta þess að passa vel upp á hvert annað, hlúa að öðrum og gæta þess að öllum líði vel.

Mikilvægt er að treysta okkar fólki hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, hjá sóttvarnarlækni og Embætti landlæknis sem eru í samráði við yfirvöld. Ég vil auk þess hvetja fólk til að við stöndum vörð um heimilin, þar er okkar besta skjól, tölum við börn okkar og okkar nánustu og hvetjum alla áfram í verkum sínum. 

Loks er afar mikilvægt að horfa fram á veginn, halda eins mikilli reglu og festu hvern dag eins og við verður komið og einnig að huga vel að góðu mataræði, góðri hreyfingu og fleiru sem bent hefur verið á til að bæta mótstöðuafl okkar. Því hér sannast að heilbrigt líferni borgar sig, það er besta vörn þeirra sem hafa tök á að byggja sig upp, gegn þessum vágesti. Því verðum við að viðhalda.

Við getum státað okkur af einu af besta heilbrigðiskerfi í heimi, við verðum því að virða leiðbeiningar frá fulltrúum þess og horfa jákvæð fram á veginn. Því með samstöðu komumst við í gegnum þessa erfiðu tíma. Það getum við. Því það er ungmennafélagsandinn.

Heilsa okkar er einn mikilvægasti hlekkur í lífi hvers og eins sem velferð og hamingja byggist á.  Því eigum við að geta sett hefðbundnar íþróttaæfingar til hliðar í einhvern tíma eins og boðað er og nýtt aðra kosti til að efla og viðhalda lýðheilsu á meðan þau boð eru í gildi.

Óvissan er vissulega mikil. En við munum ná árangri þegar við erum samtaka. Um leið getum við látið okkur hlakka til að mæta aftur til leiks hjá félögum okkar um allt land þegar birtir til. Það er ungmennafélagsandinn! 

VIÐ ERUM ÖLL ALMANNAVARNIR.

 

Gangi ykkur öllum vel. 

Haukur F. Valtýsson, formaður Ungmennafélags Íslands.