Fara á efnissvæði
26. febrúar 2022

Formaður UMFÍ: Íþróttahreyfingin þarf að hugsa til framtíðar fyrir alla

„Íþróttahreyfingin á að vera til fyrirmyndar. Það þýðir að við sem störfum innan hennar þurfum líka að vera fyrirmyndir. Þær fyrirmyndir  hugsa ekki um eigin hag heldur hagsmuni heildarinnar,‟ sagði Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, í ávarpi sem hann flutti við setningu 76. ársþings KSÍ sem fram fór í dag.

Jóhann sagði íþróttahreyfinguna þurfa að vera skrefi á undan samtíðinni til að geta komið til móts við iðkendur.

„Til að það gangi upp þurfum við að ganga óhrædd inn í framtíðina og þora að leggja á okkur þá vinnu sem þarf til að það gangi upp,‟ sagði hann og áréttaði mikilvægi þess að félög sýni sveigjanleika til að koma til móts við ólíkar þarfir iðkenda.

„Við í íþróttahreyfingunni eigum að vera óhrædd við að breyta starfsemi okkar í samræmi við þarfir og tíðaranda hverju sinni. Við eigum að hugsa út fyrir okkur sjálf og við verðum að hugsa til framtíðar fyrir alla,‟ sagði hann og hvatti til til aukinnar samvinnu innan íþróttahreyfingarinnar.

„Árangur félaganna utan vallar birtist ekki síst í auknu samstarfi og betri samvinnu innan og utan hreyfingarinnar. Góð samvinna skilar sér svo ekki síst í enn betra samstarfi við stjórnvöld, sem við verðum að muna að hafa, þrátt fyrir allt, stutt mjög dyggilega við íþróttastarf í faraldrinum,‟ sagði hann ennfremur.

Á þingi KSÍ voru þingforsetar þau Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Umf Selfoss, fyrrverandi varaformaður UMFÍ, og formaður Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi, og Helga Guðrún Guðjónsdóttir, fyrrverandi formaður UMFÍ og heiðursfélagi UMFÍ.

Myndina hér að ofan og þá af Helgu og Þóri tók Hulda Margrét fyrir KSÍ.

 

Ávarp Jóhanns í heild sinni

Ávarp á 76. ársþingi ksí 26. febrúar 2022

 

Formaður og stjórn KSÍ, ágætu gestir og þingfulltrúar.

Síðasta ár var krefjandi. Það krafðist sveigjanleika og yfirvegunar. Vissulega tók það á en eins og með margar aðrar mótbárur sem ekki brjóta okkur niður þá komumst við enn sterkari í gegnum allar þær þrengingar sem við ætlum okkur – ekki síst ef við stöndum saman.

Við stöndum öll frammi fyrir verkefnum samtímans. Vera kann að við upplifum stöðuna með ólíkum hætti og áskoranir geta vissulega verið misjafnar. En fólkið innan vébanda íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar um allt land hefur fyrir löngu sýnt hversu auðvelt það á með að ganga í verkefnin og finna lausnir á þeim vandamálum sem það stendur frammi fyrir. Ekkert fjall er svo hátt eða stórt að ekki sé hægt að komast þar upp eða í kringum það.

Íþróttahreyfingin á einnig að vera til fyrirmyndar. Það þýðir að við sem störfum innan hennar þurfum líka að vera fyrirmyndir. Þær fyrirmyndir  hugsa ekki um eigin hag heldur hagsmuni heildarinnar. Við þurfum og eigum að vinna saman, því árangur félaganna utan vallar birtist ekki síst í auknu samstarfi og betri samvinnu innan og utan hreyfingarinnar. Góð samvinna skilar sér svo ekki síst í enn betra samstarfi við stjórnvöld, sem við verðum að muna að hafa, þrátt fyrir allt, stutt mjög dyggilega við íþróttastarf í faraldrinum.

Við hjá UMFÍ nýttum tímann síðustu misseri til að fara í ítarlega stefnumótun með grasrótinni um allt land. Í vinnunni var hnykkt enn frekar á gleðinni sem felst í þátttöku í starfi innan vébandi UMFÍ, gildi samvinnu og þeim margfeldisháhrifum sem traust samstarf skilar. Gleði, samvinna og traust er umfram allt lykillinn að starfi hreyfingarinnar.

Við í íþróttahreyfingunni eigum að vera óhrædd við að breyta starfsemi okkar í samræmi við þarfir og tíðaranda hverju sinni. Við eigum að hugsa út fyrir okkur sjálf og við verðum að hugsa til framtíðar fyrir alla.

Að lokum flyt ég ykkur kveðju stjórnar og starfsfólks Ungmennafélags Íslands.

Ég óska knattspyrnuhreyfingunni velfarnaðar, þakka starfsmönnum og sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf, og óska ykkur góðs gengis á þinginu í dag.

Tökum frumkvæði, stöndum saman, hlustum og einsetjum okkur að standa undir því að vera þær fyrirmyndir sem samfélagið vill horfa til.

Það er samfélaginu til góða.

 

Takk fyrir mig.