Fara á efnissvæði
02. mars 2023

Forseti ÍSÍ bauð UMFÍ velkomið í Íþróttamiðstöðina

Lárus Blöndal, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), færði Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, formanni UMFÍ, glaðning fyrir hönd stjórnar og starfsfólks þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ fundaði í fyrsta sinn í nýjum og endurbættum ráðstefnusal í Íþróttamiðstöðinni við Engjaveg.

Þjónustumiðstöð UMFÍ flutti nýverið í Íþróttamiðstöðina og eru ÍSÍ og UMFÍ þá í fyrsta sinn undir sama þaki ásamt tveimur af stærstu sambandsaðilum UMFÍ á höfuðborgarsvæðinu og fjölda sérsambanda.

Stjórn og starfsfólk ÍSÍ kíkti í óformlega heimsókn og skoðaði þjónustumiðstöðina í tilefni af fyrsta fundi stjórnar.

Ráðist var í umfangsmiklar framkvæmdir í Íþróttamiðstöðinni vegna flutninganna en þjónustumiðstöð UMFí er nú á þriðju hæðinni í Íþróttamiðstöðinni. Þar voru áður tveir af fundarsölum ÍSÍ. Fundarsalir hafa líka verið endurnýjaðir að öllu leyti, aðstaðan tæknileg og vel tækjum búin ásamt nýjum húsbúnaði. Fundaraðstaðan fyrir þing, aðalfundi og aðra viðburði eru hin glæsilegustu.

Þrátt fyrir að framkvæmdir standi enn yfir í Íþróttamiðstöðinni þá hafa nokkur þing og aðalfundir sérsambanda verið haldin í fundaraðstöðunni. Allir sem þangað koma hrósa því hversu flott og góð aðstaðan er orðin.

 

UMSK-liðarnir Valdimar Leó Friðriksson, Jóhann Steinar Ingimundarson og Hafsteinn Pálsson, 2. varaforseti ÍSÍ, í þjónustumiðstöð UMFÍ.