Fara á efnissvæði
08. desember 2017

Forseti Íslands gisti að Laugum í Sælingsdal

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Elisa Reid, eiginkona hans, gistu og snæddu ásamt fylgdarliði sínu að Laugum í Sælingsdal þegar þau voru í opinbera heimsókn um Dalabyggð í vikunni. Þar sýndi Anna Margrét Tómasdóttir, forstöðukona Ungmenna- og tómstundabúða Lauga, þeim aðstöðuna á Laugum og hvað er í boði fyrir allan þann fjölda nemenda úr 9. bekkjum grunnskóla sem koma þangað víða að frá landinu á hverju ári.

Á myndinni hér að ofan má sjá forseta Íslands ásamt Önnu Margréti, hvort í sinni lopapeysunni.

Á Laugum skoðuðu forsetahjónin meðal annars byggðasafn Dalamanna, en það er í sama húsi og Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ.

Í heimsókn sinni heimsótti forsetinn Dvalar-og hjúkrunarheimilið að Fellsenda og Rjómabúið að Erpsstöðum þar sem bændurnir Þorgrímur og Helga tóku á móti forsetahjónunum. Þeir ungmennafélagar sem voru á sambandsráðsfundi UMFÍ á Laugum árið 2016 ættu að þekkja Þorgrím en hann var fundarstjóri þar.

 

UM UNGMENNA- OG TÓMSTUNDABÚÐIRNAR

UMFÍ starfrækir Ungmenna- og tómstundabúðirnar á Laugum í Dalabyggð og eru þær ætlaðar nemendum í 9. bekk grunnskóla. Þeir eiga möguleika á að dvelja þar frá mánudegi til föstudags við leik og störf. 
 
Markmiðið með dvölinni á Laugum er að styrkja félagsfærni unglinga, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.  

Ungmenna- og tómstundabúðirnar byrjuðu starfsemi sína í janúar árið 2005. Árlega koma um 1.800 ungmenni í búðirnar. Skólastjórnendur geta pantað dvöl í Ungmennabúðunum og hafa þær slegið í gegn hjá nemendum sem þangað koma.

 

Meira um Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ