Fara á efnissvæði
02. október 2017

Forseti Íslands: Lifum lífinu lifandi

„Það er gott og gaman að lifa lífinu lifandi, án þess að ánetjast áfengi, rafrettum, neftóbaki og hvað þetta heitir nú allt saman,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á kynningar- og blaðamannafundi í tilefni af Forvarnardeginum sem verður miðvikudaginn 4. október næstkomandi.

Fundurinn fór fram í Kelduskóla-Vík í Grafarvogi. Viðstaddir voru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, fulltrúi Actavis, skólastjóri Kelduskóla og íþróttahreyfingarinnar. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, sat fundinn fyrir hönd hreyfingarinnar.

Guðni nýtti texta úr vinsælum íslenskum lögum til að benda á skaðsemi fíknar og gleðinnar sem felst í fíkniefnalausu lífi. Hann vitnaði bæði til lagsins „Rómeó og Júlía“ eftir Bubba Morthens og lagsins „Ég vil það“ með þeim Jóa P. og Króla. Í fyrrnefnda laginu er dregin upp nöturleg mynd af heimi fíknarinnar. Í hinu gleði í fíknilausu lífi.

„Við skulum ekki búa til heim hörmunga og segja: Krakkar, ekki drekka, ekki dópa – því þá verður líf ykkar helvíti á jörð. Horfið frekar á þetta hinsegin. Það er svo gaman að lifa lífinu lifandi, þið viljið vera þið sjálf. Í guðanna bænum, ekki láta þá eitthvað annað taka líf ykkar yfir sem gerir ykkur ómögulegt að láta drauma ykkar rætast. Verum glöð að njóta og lifa,“ sagði hann og hvatti til þess að nemendur skólans sem viðstaddir voru kynninguna verji tíma með foreldrum sínum.

Í erindi sínu ræddi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um árangurinn sem náðst hefur í baráttunni við áfengi og fíkniefni á síðustu 20 árum.

Forvarnardagurinn hefur verið haldinn ár hvert á haustin frá árinu 2006 að frumkvæði forseta Íslands í því sem næst öllum grunnskólum landsins. Augum er sérstaklega beint að nemendum í 9. bekk. Margir framhaldsskólar taka líka þátt í deginum.

Að Forvarnardeginum standa forseti Íslands og UMFÍ, Reykjavíkurborg, ÍSÍ, Skátarnir, Félag framhaldsskóla, Rannsóknir og greining og Samband íslenskra sveitarfélaga. Actavis er bakhjarl verkefnisins.

Vefsíða Forvarnardagsins er forvarnardagur.is

Myndir frá kynningarfundinum