Fara á efnissvæði
03. ágúst 2024

Forseti Íslands: Þurfum að þora að mæta á völlinn

„Ekki hugsa um sigurinn einan og sér. Það er mikilvægt að setja sér markmið og öll viljum við vinna. En það er ferðalagið, að taka þátt og hafa gaman og njóta leiksins sem skiptir máli,” sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, í ávarpi sem hún flutti við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ í gærkvöldi. 

Hún sagði hafa í æsku æft handbolta og og fótbolta, sund og fimleika en ekki verið góð. Á sama tíma hafi hún eignast vini fyrir lífstíð, góðar minningar og lært að vera hluti af hópi. Hún rifjaði upp orð Antons Sveins McKee, sem sagði eftir síðasta sprett sinn á Ólympíuleikunum í París á dögunum að það sem hann taki með sér eftir þetta allt saman sé ferðalagið að komast þangað sem hann endaði.

„Það skiptir ekki bara máli að sigra, það skiptir máli hvernig farið er í ferðalagið. Ef við þorum að mæta á völlinn og leggjum okkur öll fram, þá er það sigur út af fyrir sig,“ sagði hún og hlaut gríðarlegt lófaklapp frá mótsgestum.

 

Minningar verða til

Mikið fjölmenni var viðstatt þegar Unglingalandsmót UMFÍ var sett með pompi og prakt á Skallagrímsvelli í Borgarnesi. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Björn Skúlason , maður hennar, gerðu sér sérstaka ferð til að vera við setninguna. Þetta var annað embættisverk Höllu eftir að hún sór embættiseið sem forseti Íslands á Alþingi í gær. 
Halla og Björn vöktu gríðarlega athygli og fögnuðu mótsgestir forsetahjónunum í gríð og erg. 

Við setninguna hélt Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, ávarp og bauð þúsund þátttakendur á aldrinum 11 – 18 ára og fjölskyldur þeirra, velkomin á mótið. Ljóst er að nokkuð þúsund gestir eru í bænum og gista margir á tjaldsvæðinu. 

Jóhann rifjaði upp mótasögu UMFÍ í Borgarfirði og þær nýju minningar fyrir fjölskyldu og vini, sem verða til á slíkum mótum. 

„Hamingjan leynist víða en hún getur legið í bættri lýðheilsu og við finnum fyrir henni þegar við hlæjum saman og hreyfum okkur með öðrum. Hamingjan er upplifun, heilbrigð minning af góðu móti þar sem fólk nýtur þátttöku í leik með foreldrum og forráðafólki, systrum og bræðrum, afa, ömmu, frænkum og frændum,” sagði Jóhann Steinar í ávarpi sínu. 

Mótssetningin var að mestu með hefðbundnu sniði. Kynnar voru þau Ásthildur Ómarsdóttir og Ernir Daði Sigurðsson. Þátttakendur gengu inn á íþróttasvæðið hver undir sínum sambandssfána. Eftir að hópurinn hafði gengið hringum um völlinn sameinuðust þátttakendur vinum sínum og fjölskyldum á áhorfendasvæðinu. Hlynur Blær Tryggvason hélt ávarp fyrir hönd keppenda og sagði mótið mikilvægt til að rækta vinabönd og eignast góðar minningar. 

Bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór áttu einstaklega gott mót. Að ávörpum loknum komu þeir á íþróttavöllinn. Áður en þeir hófu raust sína spretti Jón úr spori og hljóp einn hring á ágætis hraða í kringum völlinn. Eftir það fluttu þeir nokkur lög og fengu alla til að dansa og syngja með. 

Þeir komu líka fram í skemmtitjaldi á tjaldsvæðinu ásamt Siggu Ózk. 

Eftir að þeir Jón og Friðrik luku spili sínu gengu þau Kristín Eir Hauksdóttir Holaker og Sindri Karl Sigurjónsson fram með mótseldinn, sem tendraður var við sundlaugina.