Forseti Íslands verðlaunar Jóhönnu, Leó og Magnús
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti í gær verðlaun í myndakeppni Forvarnardagsins. Verðlaunin hlutu þau Jóhanna Inga Elfarsdóttir, Leó Einarsson og Magnús Bjarki Jónsson. Jóhanna er nemandi við Seljaskóla í Reykjavík, Leó er í Varmahlíðarskóla og Magnús í Álftamýrarskóla - Háaleitisskóla.
Forvarnardagur forsetans er árlegur viðburður. Hann fór fram 3. október síðastliðinn. Við það tækifæri heimsótti forseti Íslands nemendur við Menntaskólann í Harmahlíð og grunnskóla Grindavíkur og ræddi við þau um forvarnir. Áherslan í máli hans var fjölgun nemenda í grunnskólum sem nota rafrettur og aukin notkun lyfseðilsskyldra lyfja.
Í tengslum við Forvarnardaginn var efnt til myndasamkeppni fyrir ungmenni fædd á árunum 2002-2004 og gátu þau tekið myndir og birt á samfélagsmiðlum merktar #forvarnardagur18.
Valdar voru þrjár bestu myndirnar og þær verðlaunaðar. Í verðlaun voru 50.000 króna inneign hjá 66°Norður.
Verðlaunaafhendingin fór fram í blíðskaparveðri á Bessastöðum í gær. Auk ungmennanna mættu fjölskyldur þeirra, Alma Möller landlæknir og fulltrúar þeirra sem standa að Forvarnardeginum. Dagurinn er unninn að frumkvæði embættis forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitafélaga, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélags Íslands (UMFÍ), Bandalags íslenskra skáta og Reykjavíkurborg.