Fara á efnissvæði
04. október 2017

Forsetinn heimsótti FG og Hólabrekkuskóla

„Ekki myndi ég vilja kyssa manneskju sem hefur haft munntóbak uppi í sér,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann heimsótti nemendur við Fjölbrautaskólann í Garðabæ í dag. Undir það tóku nemendur skólans.

Heimsóknin var liður í Forvarnardeginum sem er í dag. Guðni hóf daginn í Hólabrekkuskóla í Breiðholti í morgun og hélt þaðan um tíuleytið í Garðabæinn. Í Hólabrekkuskóla voru jafnframt Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi Íslands, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og héldu þær báðar erindi um skátana, íþróttir og gildi heilbrigðs lífernis.

Forvarnardagurinn er helgaður þremur heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum; skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, samvera fjölskyldunnar og það að fresta því að neyta áfengis.

Í báðum skólum ræddi Guðni um neyslu áfengis og fíkniefna og skaðleg áhrif þeirra á ungmenni. Hann lagði áherslu á að boð og bönn frá fullorðnum séu ekki vænleg til árangurs. Þvert á móti eigi að fræða og fá þau til að fresta því að neyta áfengis eða sleppa því. Hann svaraði nemendum því að hann hafi aldrei reykt og aldrei langað til þess og hallmælti tóbaki og notkun þess, bæði reyktóbaki, nef- og munntóbaki.

„Það er svo gaman að lifa lífinu lifandi, þið viljið vera þið sjálf. Í guðanna bænum, ekki láta þá eitthvað annað taka líf ykkar yfir sem gerir ykkur ómögulegt að láta drauma ykkar rætast.“

Getur verið stressandi að vera forseti

Guðni fór á milli bekkja í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og lagði áherslu á mikilvægi þess að njóta líðandi stundar. Máli sínu til stuðnings vitnaði hann óspart í frænda sinn JóaPé, sem hann hitti reyndar fyrir tilviljun á göngum Fjölbrautaskóla Garðabæjar. JóiPé sló einmitt í gegn með laginu Ég vil það, sem margir þekkja en í laginu er dregin upp gleðin sem fylgir fíkniefnalausu lífi. Guðni las af blaði textabrot úr laginu.

Guðni var spurður margs í skólaheimsóknum sínum. Meðal annars var hann spurður að því hvort það sé gaman að vera forseti.

Guðni sagði það gaman þótt stundum geti það verið stressandi.

„Það taka allir eftir því sem maður segir,“ sagði hann og rifjaði upp að á kynningar- og blaðamannafundi fyrir Forvarnardaginn á mánudag hafi hann farið ranglega með eitt orð úr texta lagsins Rómeó og Júlía eftir Bubba Morthens. Það hafi komist í fréttir. Eins hafi hann á Akureyri í fyrra verið spurður að því hvað honum finnist um ananas á pizzur. Þar hafi hann sagt að ananas á pizzum ætti að banna. Það hafi ratað í heimsfréttirnar.

Spurður hvort hann sé enn sama sinnis um ananasinn svaraði Guðni: „Já, ég er á móti ananas á pizzum eins og allir hugsandi Íslendingar. Hann verður mjúkkur, heitur og ógeðslegur,“ sagði hann.

Forvarnardagurinn var haldinn í fyrsta skipti árið 2006 að frumkvæði forseta Íslands. Dagurinn var haldinn í tólfta sinn í grunnskólum landsins og í sjöunda sinn í framhaldsskólum í dag. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti í því sem næst öllum grunnskólum landsins og er beint sérstaklega að unglingum í 9. bekk en einnig taka fjölmargir framhaldsskólar þátt í þessu verkefni.

Vefsíða Forvarnardagsins er forvarnardagur.is

Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Ungmennafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.