Fara á efnissvæði
07. október 2020

Forvarnardagurinn: Hvetjum börn og ungmenni til þátttöku í skipulögðu starfi

„Mikilvægast er að finna það sem vekur áhuga hvers og eins. Hvetjum börn og ungmenni til virkrar þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þau ungmenni eru líklegri til að ná árangri, hvort sem um ræðir íþróttir, tónlist, starf með skátum, félagsmiðstöðum eða í ungmennahúsum,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Á Forvarnardaginn ræða nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna R&g á þeirra aldurshópi og hugmyndir um samveru, íþrótta- og tómstundastarf og því að leyfa heilanum að þroskast og hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra. Þau vinna í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í umræðum þeirra. Þá gefst þeim kostur á að taka þátt í leik þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

„Niðurstöður rannsókna sýna ótvírætt forvarnargildi þess að halda börnum í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Hingað kemur fjöldi fólks frá erlendum sveitarstjórnum, frá Norðurlöndunum og Suður-Ameríku, til að kynna sér starfið. Þetta er nefnilega alveg magnað,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

„Forvarnardagurinn hefur frá upphafi vakið athygli á forvarnargildi þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Rannsóknir sýna að það er ekki einungis íþróttaiðkunin sjálf sem felur í sér forvarnargildi, heldur skiptir hið skipulagða starf og umgjörðin í íþróttafélögunum miklu máli. Hvetjum börn og ungmenni til þess að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Gleðilegan Forvarnardag!“ segir Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands.

 

 

Á vefsíðunni forvarnardagur.is er hægt að sjá nýtt myndband sem Sahara bjó til í tilefni dagsins. Þar er rætt við ungmenni í ungmennaráðum um gildi íþróttaiðkunar og samveru með fjölskyldum, forseta Íslands og fleiri.

Hægt er að smella á myndina fara á vefsíðuna forvarnardagur.is og sjá myndbandið.

 

Að Forvarnardeginum standa Embætti landlæknis í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátarnir, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greining, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóli.