Fara á efnissvæði
09. desember 2024

Forvarnardeginum fagnað á Bessastöðum

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhenti verðlaun Forvarnardagsins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á laugardag. Keppnin fólst í gerð kynningarefnis sem tengist þema Forvarnardagsins, sem í ár voru leikir sem stuðla að samveru fjölskyldu og vina.

Í flokki grunnskólanema hlutu verðlaun þær Valdís Björk Samúelsdóttir, Kristný Halla Bragadóttir, Agla Dís Adolfsdóttir, Emelía Ýr Gísladóttir og Emma Mist Andradóttir, nemendur við Grunnskólann í Borgarnesi. Í flokki framhaldsskólanema komu þau í hlut Elísabetar Ingvarsdóttur sem er í Framhaldsskólanum á Húsavík. 
Fjölmenni var við verðlaunaafhendinguna. Halla hélt ávarp og ræddi fyrir gildi forvarna í stóru samhengi og nýjum áskorunum, svo sem aukinni skjánotkun barna og ungs fólks og notkun samfélagsmiðla og áhrifa þeirra á andlega heilsu.

Þetta er í 19. sinn sem Forvarnardagurinn var haldinn, en verkefni hans hafa frá upphafi verið byggð á rannsóknum um líðan ungmenna. Sýnt hefur verið fram á að samvera með fjölskyldu, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa eru verndandi þættir fyrir áhættuhegðun.

Fulltrúar þeirra sem að Forvarnardeginum standa mættu í tilefni dagsins til Bessastaða, þar á meðal fulltrúar íþróttahreyfingarinnar.

Að Forvarnardeginum standa: Embætti landlæknis í samstarfi við embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu, Planet Youth, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Heimili og skóli Samstarfi félagasamtaka í forvörnum og Ríkislögreglustjóri.

 

Meiri upplýsingar um Forvarnardaginn má sjá hér: Forvarnardagur 2024

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá verðlaunaafhendingu Forvarnardagsins á Bessastöðum.