Forvarnarmódel í lýðheilsu
Íslenska forvarnarmódelið hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun og nú er kominn tími á að ráðast í næsta átak. Í vor birti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) athyglisverða skýrslu þar sem fram kom að 60% Evrópubúa glíma við eða eru á mörkum þess að glíma við offitu. Þá eru um 33% ellefu ára barna í Evrópu á sama stað og fjölgar þeim hratt.
Vegna skorts á hreyfingu og óheilbrigðs lífsstíls vara sérfræðingar við vaxandi álagi á heilbrigðiskerfið. Helgast það af því að versnandi heilsufar leiðir til þess að fleira fólk muni þjást meira af lífsstílstengdum sjúkdómum í Evrópu en nokkru sinni fyrr. Í skýrslunni kemur einnig fram að kostnaður aðildarríkja Evrópusambandsins vegna hjarta- og æðasjúkdóma er nú talinn nema 210 milljörðum evra á ári eða 29 billjónum íslenskra króna.
Þessi þróun hefur skert lífsgæði fólks og er óvíst hvort þau muni aukast nema með samstilltu átaki. Þá er augljóst að óheilbrigður lífsstíll skapar verulegt álag á heilbrigðiskerfið og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð bæði hér á landi og víðar – ef ekki verður gripið í taumana.
Lífsstíllinn veldur byrði á samfélaginu
Niðurstöður skýrslu WHO hafa leitt til aukinnar umræðu um efni hennar á meginlandi Evrópu. Þróun mála hér á landi stefnir því miður á svipaðar slóðir og lýst er í skýrslunni, og því full ástæða til að bregðast við. Í framhaldi af útgáfu hennar hélt Evrópuþingið í Brussel utan um ráðstefnu, sem nefndist „European Action for HealthyLifestyle4All“ og var hún haldin í júnímánuði síðastliðnum, en þangað voru boðaðir fulltrúar aðila sem tengjast lýðheilsu í Evrópu.
Í erindi sem Jaap Seidell, háskólaprófessor frá Hollandi, hélt um stöðu mála dró hann upp dökka mynd. Að hans mati stendur heilbrigðiskerfi nútímans frammi fyrir heljargjá þar sem um 80% greindra sjúkdóma tengist lífsstíl fólks. Taldi hann að stjórnvöld í Evrópu yrðu að líta til orsaka þess hvernig mál hefðu þróast á þennan veg og til að ná árangri þyrfti að virkja sveitarfélög til að standa fyrir aðgerðum í nærumhverfinu.
Áhugaverðar umræður spunnust um málið, einkum út frá því að þrátt fyrir að staðreyndir liggi flestar fyrir virðast samfélagsleg meðvitund og undirtektir almennt ekki nógu góðar. Ástæðuna fyrir því að skollaeyrum væri skellt við stöðunni taldi Jaap þá að stjórnvöld væru treg til að setja nauðsynlegar reglur sem knúið gætu fram æskilega niðurstöðu. Auk þess væru miklir viðskiptahagsmunir undir og hagsmunaaðilar beittu sér markvisst gegn nauðsynlegum breytingum.
Hvað er til ráða?
Í pallborðsumræðum á ráðstefnunni voru ýmsar hugmyndir ræddar um viðbrögð við meginniðurstöðu skýrslunnar. Þar kom m.a. fram að kenna yrði þegar í barnæsku grunnatriði góðrar næringar. Æskilegt væri að virkja skólakerfið og tryggja aðkomu þess að verkefninu. Leggja þyrfti áherslu á heilbrigðara mataræði og næringarríkar skólamáltíðir auk þess sem finna þyrfti leiðir til að fá nemendur til að hreyfa sig meira á skólatíma en nú er gert, s.s. með aukinni útikennslu og skipulögðum leikjum.
Hver er sjálfum sér næstur
Niðurstaða fundarins var sú að fólk væri að vakna til vitundar um að bregðast yrði við óheilbrigðum lífsstíl og marka þyrfti leiðir til þess. Í því efni þyrfti að biðla til allra ætti árangur að nást: samfélagsins og stofnana þess en ekki síst til einstaklinganna sjálfra. Kjarninn væri í raun sá að við yrðum að sannfæra hvern og einn um nauðsyn þess að axla ábyrgð á eigin lífi.
Íslenska forvarnarmódelið
Fullyrða má að nálgunin sem rædd var af áhyggjufullum forkólfum lýðheilsumála í Brussel virðist í raun býsna lík þeirri aðferðafræði sem við Íslendingar þekkjum vel af því forvarnarstarfi sem unnið hefur verið hér á landi á síðastliðnum þrjátíu árum. Þar er lögð áhersla á að vinna með staðbundin gögn sem Rannsóknir og greining hafa tekið saman yfir árabil til samanburðar. Með slíkan grunn er unnt að taka ákvarðanir um lausnir sem byggjast á faglegri nálgun.
Betri lýðheilsa
Sameiginlegt átak í forvarnarmálum hefur skilað því að tekist hefur að gerbreyta íþrótta- og tómstundastarfi barna hér á landi með faglegra starfi og aukinni þátttöku. Það er nú stór hluti af forvörnum í vímuvarnamálum þjóðarinnar. Stjórnvöld og íþróttahreyfingin verða nú að taka næstu skref og útvíkka samstarfið, fylgjast vel og markvisst með heilsu þjóðarinnar og stuðla að fleiri kostum í hreyfingu og heilbrigðum neysluháttum en nú standa fólki til boða. Við ættum að geta nýtt íslenska forvarnarmódelið, sem vakið hefur eftirtekt víða um lönd, til að ná árangri í betri lýðheilsu.
Með gögn að vopni og samhent átak stjórnvalda, sveitarfélaga, íþróttahreyfingarinnar og einstaklinga getum við snúið vörn í sókn í lýðheilsumálum og dregið úr ónauðsynlegu álagi á heilbrigðiskerfið með forvörnum. Það dregur úr kostnaði og, það sem mest er um vert; eykur lífsgæði okkar sjálfra.
Við getum aukið lífsgæði okkar. Tökum skrefið og gerum það saman með skemmtilegu og skipulögðu landsátaki – koma svo!
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ.
Greinin birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 25. ágúst 2022.