Forvarnastarf UMFÍ fer aldrei í frí
Forvarnaverkefni UMFÍ er alltumlykjandi og stöðugt verkefni, að mati Erlu Gunnlaugsdóttur. Erla segir Unglingalandsmót UMFÍ mjög góða birtingarmynd af forvarnastarfi UMFÍ. Þar sé leiðarljósið samvera fjölskyldunnar á heilbrigðum forsendum.
UMFÍ vinnur stöðugt að forvörnum og kemur aldrei á leiðarenda. Á hverju ári koma nýir árgangar ungs fólk sem félagið vinnur með. Af þeim sökum er stefna UMFÍ í forvarnamálum alltaf leiðarljós í verkefnum hreyfingarinnar enda er verkið eilífðarverkefni.
Þetta er meginniðurstaða lokaritgerðar Erlu Gunnlaugsdóttur í kennarafræðum frá kennaradeild Háskólans á Akureyri. Í ritgerðinni skoðaði Erla stefnu UMFÍ í forvarnamálum, greindi verkefnin út frá stefnu UMFÍ og ræddi við Hauk Valtýsson, formann UMFÍ, um það hvernig forvarnastefnan birtist í verkefnum hreyfingarinnar.
Í ritgerðinni skoðar Erla helstu verkefni UMFÍ sem eru af ýmsum toga. Þar á meðal eru Unglingalandsmót UMFÍ, ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, landsmótin, Ungmennabúðir UMFÍ og þær leiðir sem stjórn UMFÍ notar til að styrkja sjálfsmynd ungmenna í starfi ungmennafélagshreyfingarinnar. Niðurstaða Erlu er að stefna UMFÍ í forvarnamálum sé alltaf leiðarljós í verkefnum ungmennafélagshreyfingarinnar.
Fram kemur í ritgerðinni að forvarnastarf UMFÍ miði meðal annars að því að fjölga samverustundum fjölskyldna, bjóða upp á ýmis tækifæri til að taka þátt í skipulagðri æskulýðsstarfsemi, efla sjálfsmynd barna og ungmenna og þroska þau á margvíslegan hátt. Störf Ungmennafélags Íslands miði við það að forvarnir séu eilífðarverkefni og í verkefnum sínum og störfum fylgir félagið stefnu sinni í forvarnamálum. Erla hefur eftir Helgu Guðrúnu Guðjónsdóttur, fyrrverandi formanni UMFÍ, að það hafi verið gæfuspor að ákveða að halda Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgar. Mótið sé án nokkurs vafa skemmtilegasta fjölskyldu-, íþrótta- og forvarnahátíð sem haldin er um verslunarmannahelgina. Helga Guðrún vekur athygli á því að umhyggja og hlýja af hálfu fjölskyldunnar sé grundvöllur velferðar barna og ungmenna. Hún
álíti að foreldrar velji í síauknum mæli að verja verslunarmannahelginni með börnum sínum á mótunum því að það dragi úr líkunum á að þau velji að fikta við að reykja eða nota áfengi eða önnur vímuefni.
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, leggur í ritgerðinni áherslu á að forvarnir séu eilífðarverkefni og þótt félagið sé með stefnu þurfi sífellt að endurnýja hana. Aldrei megi sofna á verðinum varðandi forvarnir. Tekið er sérstaklega fram að Haukur vilji efla forvarnastarfið með það að markmiði að auka lýðheilsu almennings í landinu og vilji UMFÍ sé til að vinna með yfirvöldum að bættri lýðheilsu á Íslandi og efla forvarnir. Um leið sé UMFÍ meðvitað um að forvarnir eru síbreytilegar og að alltaf þurfi að
aðlaga þær hverjum tíma. Forvarnastarfið fari því aldrei í frí.
Finnst fáir hafa skoðað starf UMFÍ
„Það kom mér á óvart að svo virðist sem lítið sé talað um það hvaða gildi viðburðir UMFÍ hafa fyrir ungmenni og fáir hafa skoðað starfið,“ segir Erla. Hún er fædd árið 1995 og 24 ára. Þremur árum áður en hún fæddist var Unglingalandsmót UMFÍ haldið í fyrsta sinn.
Erla er ungmennafélagi fram í fingurgóma, ólst upp við að fara á Landsmót UMFÍ og taka þátt í viðburðum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hún hefur sjálf tekið þátt í sex Unglingalandsmótum, unnið fyrir sambandið sitt, sem er UÍA, og auk þess tekið þátt í umræðupartýum UMFÍ, ráðstefnunni Ungu fólki og lýðræði og gert margt fleira. Hún var meðal annars starfsmaður UÍA þegar Unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2017.
Erla, sem ólst upp á Egilsstöðum, segir undarlegt að á unglingsárunum hafi hún iðulega verið sú eina í sínum bekk sem fór á Unglingalandsmót UMFÍ. Almennt hafi ekki margir í árgangi hennar farið á mótin. „Þetta breyttist reyndar strax þegar mótið var haldið á Egilsstöðum árið 2011 en þá vissu fleiri af því og héldu áfram að fara á mótin eftir það,“ segir Erla og telur mikilvægt að mótið sé haldið sé sem víðast um landið svo að fólk kynnist því. „Um leið og fólk kynnist mótunum eykst forvarnagildið,“ bætir hún við.
Erla segir það hafa verið forvitnilegt að kíkja á bak við tjöldin hjá UMFÍ og skoða hvernig unnið er að framgangi stefnu UMFÍ í mörgum málum, svo sem í forvarnamálum.
„UMFÍ vinnur alveg magnað starf á mörgum sviðum. Forvarnir eru til dæmis mjög góð hliðarafurð af umræðupartýum UMFÍ þar sem allir skemmta sér án áfengis og vímuefna. Í partýunum endurspeglast að ungt fólk vill forvarnir og að UMFÍ hlustar á þær raddir,“ segir Erla. Hún telur það sama eiga við um Unglingalandsmót UMFÍ.
„Þetta er áreiðanlega einhver ódýrasta fjölskylduhátíð sem völ er á. Fólk ætti að fara á mótið. Ég á sjálf þrjár yngri systur. Við fórum öll saman á Unglingalandsmót UMFÍ. Amma kom með og við vorum öll saman á tjaldsvæðinu. Mótið styrkir samveru fjölskyldunnar. Það er jákvætt enda sýna niðurstöður rannsókna að tengsl eru á milli samveru og neyslu. En ég held að fólk átti sig ekki almennilega á því hvað starf UMFÍ er gott og Unglingalandsmótið hefur góð áhrif. Ég mæli eindregið með Unglingalandsmótinu og hvet foreldra til að senda börn sín á viðburði UMFÍ,“ segir Erla Gunnlaugsdóttir.
Viðtalið og umfjöllunin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er hægt að lesa í heild sinni hér.