Forvarnir virka best með fleiri gæðastundum fjölskyldunnar
Hinn árlegi Forvarnardagur fór fram í dag. Við það tækifæri heimsótti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, nemendur við Menntaskólann í Harmahlíð og grunnskóla Grindavíkur og ræddi við þau um forvarnir.
Eins og fram kom á blaðamannafundi í tengslum við Forvarnardaginn á mánudag er áherslan nú á hvað nemendum í grunnskólum hefur fjölgað mikið sem nota rafrettur og notkun lyfseðilsskyldra lyfja.
Guðni tók virkan þátt í öllum umræðum en sagðist hvorki tala fyrir boðum né bönnum. Þvert á móti þurfi að fræða frekar en að hræða. Hann hafi einu sinni talað gegn ananas á pizzur. Það hafi ekki skilað góðum árangri.
Í Grindavík voru nokkrir með erindi og unnu svo nemendur saman í hópum.
Á meðal þeirra sem ræddu við forsetann og nemendur voru Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði meistaraflokks karla í knattspyrnu. Hann sagði í erindi sínu mikilvægt að ungmenni sem vilji hvorki neita áfengis né annars láti ekki undan þrýstingi annarra. Sjálfur neytir hann ekki áfengis. Þá fræddi körfuboltaþjálfarinn Pétur Guðmundsson nemendurnar um sjálfstraust og mikilvægi þess að standa með sjálfum sér. Katrín Lóa Sigurðardóttir og Skúli Lórenz úr Grindavík kynntu hvað ungliðastarfið hjá björgunarsveitinni í Grindavík hafi skilað þeim.
Nemendur grunnskólans unnu saman í hópum verkefni tengt Forvarnardeginum. Samhljómur var í öllum hópum að fjölga þurfi gæðastundum fjölskyldunnar. Það sé hægt með því að vera meira saman og hvorki í símum né tölvum. Mæltu þau frekar með bíóferðum fyrir fjölskylduna, keilu, fjallgöngu eða spilakvöldum.
Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá Forvarnardeginum í Grindavík.