Fara á efnissvæði
03. júní 2020

Frábær Hreyfivika að baki

„Þetta var alveg frábær Hreyfivika UMFÍ og það var æðislegt að vera í samskiptum við boðbera hreyfingar um allt land sem stóðu fyrir heilum helling af viðburðum,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ og verkefnastjóri Hreyfivikunnar.

Hreyfiviku UMFÍ lauk sunnudaginn 31. maí og var þetta níunda árið sem vikan er haldin. Í Hreyfiviku UMFÍ eru landsmenn hvattir til að flétta saman hreyfingu inn í daglegt amstur sitt og virkja aðra með sér. Öll hreyfing telur í Hreyfivikunni og er eina skilyrðið að hún veiti fólki ánægju.

 

 

Boðberar hreyfingar eru þeir sem standa fyrir viðburðum víða um land ásamt einstaklingum, íþróttafélögum, fyrirtækjum, fulltrúum sveitarfélaga og íþróttakennurum í fjölda skóla. Boðberunum hefur fjölgað mikið í gegnum árin sem standa fyrir því að virkja aðra og hjálpa þeim að finna sína nýju uppáhalds hreyfingu.

Þetta árið stóðu boðberar fyrir hvorki meira né minna en 200 viðburðum á um 40 bæjum og bæjarfélögum um allt land. Brennibolti var í aðalhlutverki í Hreyfivikunni þetta árið og sendi UMFÍ fjölda sérmerkta brennibolta til þátttakenda. Boðberar gátu líka svalað þorsta sínum með Kristal, en Ölgerðin er bakhjarl Hreyfiviku UMFÍ.

 

Myndaleikur

Í Hreyfivikunni þetta árið fór fram leikur sem fól í sér að þátttakendur gátu sent inn myndir af hreyfingu sinni á Instagram og merkja með myllumerkinug #mínhreyfing. Í verðlaun eru gjafir frá

Farm Hotel Efstadal. Haft verður samband við vinningshafa á næstu daga.

 

Ný bæjarfélög bætast við

Sabína segir frábæra að sjá að íbúar í fleiri bæjarfélögum en áður bætist við í hóp þeirra sem taki þátt í Hreyfiviku UMFÍ. Þar á meðal er Suðurnesjabær sem tók þátt í fyrsta sinn og bauð upp á þétta og flotta dagskrá. Dagskráin var sömuleiðis flott og fjölbreytt í mörgum skólum, að sögn Sabínu.

„Skemmtilegt fannst mér hvað boðberar hreyfingar voru duglegir að senda okkur hjá UMFÍ myndir af viðburðunum og þátttökunni, sem var allsstaðar góð,“ segir hún.

Hér má sjá nokkrar af þeim fjölmörgu myndum sem boðberar hreyfingar sendu til UMFÍ af viðburðum sínum.

 

Allt að gerast!

Hér má lesa fleiri fréttir af boðberum hreyfingar í Hreyfiviku UMFÍ:

Djúpivogur: Brennibolti hápunktur Hreyfivikunnar á Djúpavogi

Borgarfjörður: Sameina göngufólk og hjólreiðagarpa yfir Skarðsheiði 

Reyðarfjörður: Líf og fjör í Hreyfiviku UMFÍ

Vogar á Vatnsleysuströnd: Sölvi, Hjálmar og Helgi ræddu um heilsuna

Reykjavík: Nemendur í Hamraskóla skemmta sér

Garðabær: Kynnir strandblak í mígandi rigningu

Reykjavík: Nemendur Dalskóla spenntir fyrir brennó

 

Hér má sjá myndir frá fjölda boðberum í Hreyfivikunni.