Fara á efnissvæði
27. október 2017

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ úthlutar 6,5 milljónum króna

„Það er frábært að fá styrk frá UMFÍ. Við vildum hafa ókeypis sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur á öllum aldri hjá Aftureldingu svo sem flestar gætu nýtt sér það. Deildin tók það á sig. En aðsóknin var það mikil að við urðum að vísa mörgum frá,“ segir Haukur Skúlason, formaður Taekwondeildar Aftureldingar. Deildin hefur fengið styrk úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ til að halda sjálfsvarnarnámskeið fyrir konur.

Námskeiðið sem um ræðir hófst í byrjun október, er einu sinni í viku og stendur í átta vikur. Á námskeiðinu eru 40 þátttakendur frá 12 og upp úr fimmtugu. Slík var aðsóknin á námskeiðið að öðrum eins fjölda varð að vísa frá.

Haukur segir styrkinn nýtast inn í deildina svo hægt er að gera betur við þá 50-60 börn og ungmenni sem æfi líka íþróttina hjá Aftureldingu.

Veita styrki upp á 14,7 milljónir

Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ veitir styrkir tvisvar á ári til fjölda verkefna. Að þessu sinni var 65 verkefnum úthlutað tæpum 6,5 milljónum króna. Þetta er önnur úthlutun ársins en sú fyrsta var í maí. Heildarúthlutun ársins nemur 14,7 milljónum króna.

Af styrkveitingum má merkja að mikil uppbygging er í gangi hjá sambandsaðilum UMFÍ. Sem dæmi fengu Körfuknattleiksdeildar Gnúpverja styrk vegna stofnunar nýrrar deildar og Ungmennafélag Kjalarness styrk í tengslum við stofnun borðtennisdeildar og leiklistardeildar. Þá hlautp blakdeild Kormáks, sem er undir Ungmennasambandi Vestur-Húnvetninga, styrk til uppbyggingar blakíþróttar. Fleiri deildir sambandsaðila UMFÍ fengu styrki líka til útbreiðslu á hinum ýmsu greinum.

Á meðal hæstu styrkjanna hlýtur Nefnd eldri ungmennafélaga vegna námskeiða, kynningu og útbreiðslu íþrótta og heilsueflingar fyrir eldri borgara. Þá hlaut Ungmennafélag Laugdæla 250.000 króna styrk vegna kortavinnu á göngu-, skokk- og hjólaleiðum. 250.000 krónur eru líka veittar UMFÍ til merkingar landsmótsstaða.

 

Sjóðir UMFÍ

Hér má finna ítarlegri upplýsingar um sjóði UMFÍ

Fleiri styrkveitingar úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ