Fara á efnissvæði
01. desember 2022

Framhaldsskólanemendur kynna sér íþróttahreyfinguna

Rúmlega 20 nemendur við íþróttafræði- og lýðheilsubraut við Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) heimsóttu Íþróttamiðstöðina í Reykjavík og kynntu sér starfsemi UMFÍ og ÍSÍ, íþróttalífið og ýmislegt fleira um lýðheilsu í dag. Andrés Þórarinn Eyjólfsson, kennari við skólann, fylgdi nemendunum. Þau nýttu ferðina og heimsóttu m.a. íþróttadeild Morgunblaðsins.

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ, og Þórarinn Alvar Þórarinsson, sérfræðingur á sviði fræðslu- og almenningsíþrótta hjá ÍSÍ, fræddu nemendurna um allt sem þau vildu vita um íþróttahreyfinguna og ýmis samstarfsverkefni UMFÍ og ÍSÍ.

Jón fjallaði m.a. um Unglingalandsmót UMFÍ, viðburði Íþróttaveislunnar, Landsmót UMFÍ 50+, Skólabúðirnar á Reykjum, Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni, ungmennaráðstefnur og margt fleira. Nemendurnir skoðuðu líka framkvæmdir sem ganga vel við nýja þjónustumiðstöð UMFÍ. Þjónustumiðstöðin verður á þriðju hæð Íþróttamiðstöðvarinnar.