Framlög til íþrótta stóraukast
Stór skref voru stigin á Alþingi í gær þegar samþykkt var að veita rúmum 2,1 milljarði króna til viðbótar við fjárlagafrumvarp í íþróttastarf. Um er að ræða viðbótarfjármagn, 640 milljónir króna til afreksstarfs og 1,5 milljarða króna fjárveitingu til byggingu Þjóðarhallar og annarra íþróttamannvirkja. Aukningin er hluti af samþykkt fjárlagafrumvarps ársins 2025, sem samþykkt var frá Alþingi í gær.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sem fer með málefni íþrótta, skrifar á Facebook-síðu sína í gær aukningu til íþróttastarfs aldrei hafa verið meiri. Þetta þýði að hægt verði að stórauka stuðning við landsliðin, sérstaklega yngri landslið.
Í umfjöllun Fjármála- og efnahagsráðuneytis um fjárlagafrumvarpið segir að stefnt sé að því að hafist verði handa við byggingu Þjóðarhallar í innanhússíþróttum og aukið fjármagn verður sett í uppbyggingu á afreksstarfi í íþróttum.
Byggt á góðri samvinnu
Aukinn stuðning við íþróttastarf, sér í lagi afreksíþróttir og landsliðin, á sér töluverðan og góðan undirbúning og samstarf á breiðum grunni ásamt stuðningi Ásmundar Einars, sem tók undir með íþróttahreyfingunni og studdi ráðuneytið áformin.
Einn af lykilþáttunum snemma í ferlinu var þegar mennta- og barnamálaráðuneytið ásamt ÍSÍ blésu til sóknar með ráðningu Vésteins Hafsteinssonar í starf Afreksstjóra ÍSÍ í byrjun árs 2023. Vésteinn var ráðinn til fimm ára til að leiða umbótastarf og fylgja eftir breytingatillögum starfshóps, sem hann leiddi, í samvinnu við ráðuneytið og ÍSÍ, samhliða starfi sínu sem afreksstjóri.
Í starfshópi um afreksstarf sem Vésteinn leiddi sat meðal annars Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness (ÍA), sem jafnframt situr í stjórn UMFÍ og UMFÍ tilnefndi til setu í hópnum auk Erlings Jóhannssonar, sem tilnefndur var af Íþróttanefnd ríkisins.
Önnur í starfshópnum voru: Vésteinn Hafsteinsson, formaður án tilnefningar, Örvar Ólafsson, án tilnefningar, Hildur Ýr Þórðardóttir, án tilnefningar, Steinþór Einarsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, María Sæm Bjarkardóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti, Eva Margrét Kristinsdóttir, tilnefnd af félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, og þau Knútur G. Hauksson og Kristín Birna Ólafsdóttir, sem tilnefnd voru af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
Í framhaldi af stofnun starfshópsins stóð Mennta- og barnamálaráðuneytið ásamt ÍSÍ, UMFÍ og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksmálum á Íslandi. Niðurstöðum úr hópavinnu var safnað saman sem innlegg í vinnu starfshóps um stöðu og réttindi afreksfólks. Vel á fjórða hundrað manns mætti á ráðstefnuna og fylgdust ríflega 2.000 með henni í netstreymi.
Starfshópur um afreksmál skilaði svo af sér skýrslu í vor með tillögum að fyrirkomulagi sem nú eru stigin stór skref í í átt að veruleika.
Til viðbótar við þetta studdi ráðuneytið íþróttahreyfinguna við að koma svæðisstöðvum íþróttahreyfingarinnar á laggirnar. Svæðisstöðvarnar eru átta talsins um allt land með tveimur stöðugildum á hverri stöð. Ráðuneytið hefur fjármagnað stöðvarnar með íþróttahreyfingunni til tveggja ára en hlutverk þeirra er meðal annars að greina stöðu íþróttamála um allt land og auka samtal og samvinnu hagaðila um íþróttastarf.
Sjá ítarefni:
Blásið til sóknar í afreksstarfi
Vinnum gullið með stuðningi, samvinnu og fjármagni
Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs